Gul viðvörun en hitinn gæti náð 20 stigum á Suðurlandi

Spáð er hvössum vindi á Suðaustur- og Austurlandi í dag.
Spáð er hvössum vindi á Suðaustur- og Austurlandi í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Gul veðurviðvörun er í gildi vegna hvassviðris á Austurlandi og Suðausturlandi en hún tók gildi á miðnætti og stendur fram til klukkan 20 í kvöld.

Á þessum landsvæðum er búist við vindhraða upp á 20 metra á sekúndu og allt að 35 metra á sekúndu í hviðum.

Í dag verður norðvestan 13-20 m/s en hægari vestan til. Það verður rigning á norðaustan- og austanverðu landinu en skýjað með köflum vestan til. Vind tekur síðan að lægja og það verður breytileg átt, 3-8 m/s og að mestu bjart en úrkoma norðaustan til með norðvestan 5-10 m/s og þar verður skýjað en þurrt að kalla þar síðdegis. Hitinn verður á bilinu 5 til 20 stig, mildast á Suðurlandi.

Á morgun verður breytileg átt, 3-8 m/s og þurrt og bjart veður, en norðvestan 8-13 og rigning eða súld austan til fram eftir degi. Hiti verður frá 5 stigum norðaustanlands að 20 stigum syðst á landinu.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert