Heitavatnslaust í einn og hálfan sólarhring víða á höfuðborgarsvæðinu

Suðuræð er ein aðalflutningsleiðin á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu.
Suðuræð er ein aðalflutningsleiðin á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Veitur

Heitavatnslaust verður í einn og hálfan sólarhring í öllum Hafnarfirði, Kópavogi, Álftanesi, Garðabæ, Norðlingaholti og Breiðholti frá klukkan 22 mánudagskvöldið 19. ágúst til hádegis á miðvikudeginum 21. ágúst.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum en ástæða heitavatnsleysisins er sú að vinna stendur yfir að tvöfalda á suðuræð sem flutningsæð og flytur vatn frá Reynisvatnsheiði og á stóran hluta af höfuðborgarsvæðinu. Í lok ágúst verður hluti hennar tekin í notkun. 

Framkvæmdin er fyrsti hluti af lagningu suðuræðar 2Fyrsti áfangi verður tekinn í notkun haustið 2024 og mun yfirborðsfrágangi að mestu ljúka árið 2025. Lokafrágangur er þó háður vinnu við mislæg gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar.

Vinnusvæðið.
Vinnusvæðið. Kort/Veitur

Vinnusvæðið er samhliða Breiðholtsbraut frá undirgöngum við Jafnasel og undir brúna yfir Elliðaá.

Fram kemur í tilkynningunni að Veitur muni vera í samráði við íbúa og rekstraraðila á stöðunum til að tryggja góða upplýsingagjöf vegna málsins.

Lokunin á þeim tíma sem minnsta notkun er á heitu vatni

„Við höfum skipulagt lokunina þannig að hún verði á þeim tíma sem minnsta notkun er á heitu vatni. Við skilum vel að það komi sér illa fyrir mörg að vera án heits vatns í rúman sólarhring en því miður verður svo að vera þegar um svo stórt verk er að ræða. Við erum að tengja stofnlögn heita vatnsins til að auka rekstraröryggi og flutningsgetu fyrir íbúa til næstu áratuga,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að samhliða tengingunni á stofnlögninni verði sinnt mikilvægu viðhaldi og tengdar verða nýjar lagnir á fjórum stöðum til viðbótar til að takmarka þau skipti sem þurfti að stöðva afhendingu vatns til íbúa.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert