Ísfirska roðið til Afganistan

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, segir brunasár afganskra kvenna og barna tíð …
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, segir brunasár afganskra kvenna og barna tíð vegna eldunaraðferða þar í landi.

Á dögunum hlutu fjögur íslensk fyrirtæki styrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífsins á vegum utanríkisráðuneytisins. Eitt þeirra er ísfirska fyrirtækið Kerecis sem framleiðir roð til meðhöndlunar á ýmiss konar sárum. Verkefnið sem Kerecis hlaut styrk fyrir er alþjóðlegt samstarfsverkefni sem snýr að því að bæta meðferð brunasára í Afganistan.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri fyrirtækisins, segir að styrkurinn úr Heimsmarkmiðasjóði og aðkoma utanríkisráðuneytisins sé mikilvægur liður í að greiða leiðina fyrir verkefnið.

Fljúga þurfi læknum til Afganistan til að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í meðferðum á brunasárum barna á brunadeild Indira Ghandi barnaspítalans í Kabúl. En til þess að hægt sé að nota roðin frá Kerecis eða sambærilegar vörur þurfi rétt þjálfun og tækni að vera til staðar inni á spítölum.

Kerecis gefur roðin til verkefnisins.

Læknar meðhöndla barn á brunadeild Indira Ghandi barnaspítalans í Kabúl, …
Læknar meðhöndla barn á brunadeild Indira Ghandi barnaspítalans í Kabúl, höfuðborg Afganistan. Ljósmynd/Aðsend

Hræðileg slys vegna eldunaraðferða í Afganistan

Danska sendiráðið í Kabúl sér um hagsmuni Íslands. Sendiráðið fær vegabréfaáritanir og fleira sem þarf til að verkefnið geti átt sér stað í landi sem er háð óvissu og hættulegum aðstæðum.

Guðmundur segir að þegar talað er um brunasár í þessu samhengi er ekki verið að tala um skot- eða sprengjusár. Í þróunarlöndum eins og Afganistan, hluta Pakistan, Egyptalandi og fleiri löndum eldar fólk með steinolíu á prímusum. Húsakynni eru oft ekki góð svo að allir troðast um inni í eldhúsi. Konurnar eru þær sem elda og hugsa um börnin sem eru á hlaupum í kringum prímusana. Þess vegna eru allir þessir hræðilegur brunar kvenna- og barnaslys. Að sögn Guðmundar eru þetta því miður algeng slys.

„Við erum að tala um tugir þúsunda manna um allan heim sem brenna á hverju ári.“

Roðið frá Kerecis virkar vel á allan bruna og er til að mynda notað í Þýskalandi og Sviss á Úkraínumenn með sprengjusár. „En það er allt annar handleggur.“

Roðin sem Kerecis framleiðir hafa verið tekin í notkun á …
Roðin sem Kerecis framleiðir hafa verið tekin í notkun á barnaspítalanum í Kabúl, með viðeigandi þjálfun heilbrigðisstarfsfólks. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægi þjálfunar við meðhöndlun brunasára

Það eru ekki einungis brunaslysin í Afganistan sem eru alvarleg heldur einnig sú staðreynd að ekkert er um hátæknisjúkrahús. Guðmundur nefnir þar dæmi að í vestrænum ríkjum endi fólk með brunasár inni á hátæknisjúkrahúsum þar sem allt er hreint. Við tekur jafnvel 30-40 manna teymi og sjúklingurinn er svæfður áður en hann er meðhöndlaður.

Ferlið er afar flókið og sársaukafullt þar sem oftar en ekki þarf að skera dautt hold í burtu og annaðhvort flytja húð af sjúklingnum inn í sárið eða nota roðin til að loka sárinu.

Á barnaspítalanum í Afganistan líkt og í öðrum þróunarlöndum eru lítil börn í litlum vistarverum og læknir, eins og afganski læknirinn dr. Habib, sem reynir að gera það sem hann getur við frumstæðar aðstæður.

En hátækni eins og roðin frá Kerecis eru ekki nóg, segir Guðmundur og leggur aftur áherslu á að þjálfa þurfi lækninn, sýna honum hvernig roðið virkar, hvernig skera eigi dauða holdið í burtu, hve mikla svæfingu sjúklingurinn þurfi o.s.frv.

Með þessum styrk verður mikil breyting á barnaspítalanum í Kabúl í meðhöndlun á brenndum börnum.

Brunaslys á börnum eru því miður allt of algeng í …
Brunaslys á börnum eru því miður allt of algeng í löndum eins og Afganistan, vegna lélegra húsakynna og aðferða við eldamennsku. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurður segir Guðmundur að hagur Kerecis í tengslum við verkefni sem þetta sé ekki fjárhagslegur, heldur sá að auka notkun á vörunni og sýna fram á að hægt sé að nota hana í erfiðum aðstæðum.

„Markmiðið mitt er að öll stór og þrálát sár í heiminum verði meðhöndluð með roði frá Ísafirði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert