Körturnar geta verið eitraðar hundum og köttum

Körtur hafa sést villtar í Garðabænum síðan árið 2017.
Körtur hafa sést villtar í Garðabænum síðan árið 2017. Ljósmynd/Askur Hrafn Hannesson

Körtur sem hafa komið sér fyrir í Garðabænum geta verið eitraðar fyrir hunda og ketti. Þær eru ekki hættulegar fólki, en Matvælastofnun (MAST) og Náttúrufræðistofnun eru ekki sammála um hvort þær teljist sem gæludýr eða ekki.

Fyrst var fjallað um körturnar í fjölmiðlum árið 2017. Fjallaði mbl.is síðast um málið árið 2021 en á dögunum vakti Vísir athygli á körtunum að nýju.

Þar sagði Askur Hrafn Hannesson allt vera morandi í froskum í garðinum sínum í Garðabæ. Þeir hafi stækkað umtalsvert frá því að fjölskyldan varð fyrst var við þá fyrir sjö árum síðan.

Nokkuð margar körtur hafa fundist í Garðabænum á litlu svæði.
Nokkuð margar körtur hafa fundist í Garðabænum á litlu svæði. Ljósmynd/Askur Hrafn Hannesson

Ósammála hvort körturnar séu gæludýr

Blaðamaður hafði samband við Náttúrufræðistofnun vegna kartanna í vikunni. Benti stofnunin þá á að hafa samband við MAST og bar það fyrir sig að froskar teldust vera gæludýr.

„Við lítum ekki á að þetta sé á okkar borði. Þetta eru klárlega ekki gæludýr, þetta er ekki dýraverndunarmál, þetta er ekki dýrasjúkdómamál, þannig að þetta er ekki eitthvað sem við aðhöfumst með,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri MAST, í samtali við mbl.is.

Hún bendir á það að Náttúrufræðistofnun hafi áður greint dýrin, og þá hafi komið í ljós að um almennar körtur væri að ræða, ekki froska.

Froskarnir eru víst körtur. Askur Hrafn Hannesson tók myndirnar af …
Froskarnir eru víst körtur. Askur Hrafn Hannesson tók myndirnar af körtunum þar sem hann býr í Garðabæ. Ljósmynd/Askur Hrafn Hannesson

Ekki hættulegar fólki

Engu að síður hafði dýralæknir MAST samband við ítalskan körtusérfræðing.

„Eftir því sem hann segir geta þær [körturnar] alveg verið eitraðar fyrir hunda og ketti sem sleikja þær eða eitthvað svoleiðis,“ segir Hrönn Ólína.

Hún gat þó ekki sagt til um hversu hættulegar þær væru ferfætlingunum, en körturnar ættu ekki að vera hættulegar fólki.

„En ekki sleikja þær, við mælum ekki með því,“ bætir Hrönn í hálfgerðu gríni þó vissara sé að hlíða þeim ráðum.

„Ef það er verið að fikta í þeim þá byrjar þær að seyta frá sér einhverju efni. Þetta er ekki hættulegt fólki.“

Körturnar eru nokkuð stórar.
Körturnar eru nokkuð stórar. Ljósmynd/Askur Hrafn Hannesson

Ekki áhyggjur af því að stofninn dreifi sér

Hrönn segir að eftir því sem hún komist næst þá hafi hópur af körtum dúkkað upp á þessu svæði í Garðabænum á um það bil tveggja ára fresti.

Óvissa ríkir um uppruna kartanna, en Hrönn telur líklegt að um svipaða sögu sé að segja og um villtar kanínur og minka hér á landi. Einhverjir einstaklingar hafi sloppið út í náttúruna og einhvern vegin náð fótfestu.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir er forstjóri Matvælastofnunar.
Hrönn Ólína Jörundsdóttir er forstjóri Matvælastofnunar. Samsett mynd

Er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að körturnar nái að dreifa sér um landið?

„Ekki miðað við þær upplýsingar sem ég hef í dag,“ segir Hrönn.

Bendir hún þó á að stundum sé talið að dýr eins og körturnar lifi ekki af í íslenskri náttúru en þau séu aðlögunarhæf og finni leið til þess.

Útbreiðsla bundin við tvær íbúðagötur

Skýrsl­a um framandi tegundir var tek­in sam­an af Nátt­úru­fræðistofn­un fyr­ir Um­hverf­is­stofn­un í byrjun árs 2021.

Þar segir að froskar hafi sést á litlu svæði í Garðabæ síðan 2017. Útbreiðsla dýranna virðist afar tak­mörkuð og að mestu bund­in við tvær íbúðagöt­ur og talið lík­legt að lít­il tjörn sé á svæðinu.

Ekki er tal­in hætta á að frosk­teg­und­in nái auðveld­lega meiri út­breiðslu hér­lend­is en það geti þó breyst ef ein­stak­ling­ar kom­ast í stærri eða tengd vatna­kerfi, seg­ir í skýrsl­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert