Landsréttur um Heiðar: „Á sér engar málsbætur“

Heiðar lamdi konu sína og nauðgaði.
Heiðar lamdi konu sína og nauðgaði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest átta ára fangelsisrefsingu yfir Heiðari Erni Vilhjálmssyni fyrir stórfellt heimilisofbeldi gegn eiginkonu sinni, meðal annars nauðgun, og misnotkun á yfirburðastöðu gagnvart henni.

Héraðsdómur Reykjaness hafði áður sakfellt hann í 13 ákæruliðum en Landsréttur sýknar manninn þó í sjö ákæruliðum vegna skorts á sönnunargögnum. Þrátt fyrir það þá er ekki hnekkt við refsingunni sem kveðin var upp heima í héraði.

„Þótt ákærði sé hér sýknaður af sjö ákæruliðum er hann sakfelldur fyrir alvarlegustu brotin sem honum eru gefin að sök. Brotin sem hann er sakfelldur fyrir eru mörg og gróf,“ segir í dómi landsréttar.

Konan beitt miklu ofbeldi

Heiðar er sakfelldur fyrir ofsafengna og langa atlögu að konunni þar sem hún var beitt miklu ofbeldi, þar á meðal kynferðisofbeldi, hlaut útbreidda og alvarlega áverka og hefði látist ef hún hefði ekki komist undir læknishendur.

Annað brot sem hann er sakfelldur fyrir fól einnig í sér hrottalega atlögu þar sem ákærði réðst að konunni varnarlausri á heimili sínu, beitti hana líkamlegu ofbeldi og nauðgaði henni og gerði henni meðal annars erfitt fyrir um andardrátt.

Þá er hann sakfelldur fyrir ítrekaðar líkamsárásir á eiginkonu sína á heimili hennar auk þess að beita hana andlegu ofbeldi gagnvart á löngu tímabili þar sem hún var ítrekað svívirt og smánuð og meðal annars hótað lífláti.

Bjó við ógnarástand

„Ekki fer á milli mála að brotaþoli bjó á sambúðartímanum við alvarlegt ógnar- og óttaástand, þjáningu og kúgun, þar sem ákærði misnotaði freklega yfirburðastöðu sína gagnvart henni og beitti hana ítrekað ofbeldi með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á heilsu, líðan og velferð hennar. Ákærði á sér engar málsbætur,“ segir í dómi Landsréttar.

Sakarkostnaður er óraskaður og þá honum er gert að greiða 3/4 hluta áfrýjunarkostnaðar, eða 3.876.396 krónur. Er honum gert að greiða konunni 6 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert