Lýsir skrílslátum mótmælenda á Austurvelli

Við Austurvöll.
Við Austurvöll. Árni Sæberg

Jónas Haraldsson, lögfræðingur, skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fer hörðum orðum um hávær mótmæli við Austurvöll á 17. júní á meðan á hátíðarhöld stóðu yfir og ræður voru fluttar.

Honum var mjög brugðið þegar hann sá að búið var að girða Austurvöll af með stálgrindum og að lögreglumenn stóðu þar í þéttri röð. Honum þykir það hneyksli að til slíkra öryggisráðstafana þurfi að grípa vegna væntanlegra skrílsláta á þjóðhátíðardegi Íslendinga.

Jónas segir hátíðarhöldin á 17. júní ávallt hafa farið friðsamlega fram og viðstaddir tekið þátt í þessum degi með friði og spekt. Hann segir að þó tjáningarfrelsi ríki á Íslandi og mótmæli séu heimil þá þýði það ekki að „tilgangurinn geti helgað meðalið, eins og sumir virðast halda.“

Fámennur hópur mótmælenda með skrílslæti

Nú hafi borið svo við að fámennur hópur kvenna hafi verið með hávaða og skrílslæti sem beindust sérstaklega að ræðumanni dagsins. Jónas hafi verið staddur nálægt þeirri sem var í forystu þessara mótmæla og er hann þar að vísa í tónlistarmanninn Möggu Stínu, sem hann telur að hafi með þessari framkomu sinni verið að fá útrás fyrir sýniþörf og athyglissýki.

Jónas hafi að lokum misst þolinmæðina við að hlusta á öskrin í mótmælendum og stuggað aðeins við umræddri konu með því að ýta regnhlíf í brúna tösku sem hún var með meðferðis. Í framhaldinu hafi hann beðið hana hætta þessum látum en hún hafi brugðist illa við og farið að öskra á sig í staðinn. Hún hafi síðan klagað sig í lögreglumann á staðnum. 

„Nú var gott fyrir hana að geta leitað til lögreglunnar og eiga þar hauk í horni í erfiðleikum sínum,“ segir Jónas. 

Hrækja á lögreglumenn og grýta  

Hann segist ekki geta skilið þennan mótmælanda sem ásamt fleiri líkum hafi ekkert dregið úr mótmælum og skrílslátum. Þau séu ekki einungis með fúkyrði við lögreglu við skyldustörf, heldur séu mótmælendur einnig að hrækja á lögreglumenn og grýta í þá hlutum til þess að gera þeim erfitt fyrir að gæta öryggis ráðamanna og að sinna skyldum sínum.

„Svona framkomu er ekki hægt að réttlæta eða þola og verður í framtíðinni að reyna að koma í veg fyrir. Á Íslandi ríkir ekki skrílræði, þar sem fólki er heimilt að hegða sér eins og því sýnist hverju sinni,“ segir Jónas í grein sinni.

Þakkar lögreglu fyrir vanþakklátt starf í þágu þjóðarinnar

Að lokum lýsir hann yfir aðdáun sinni á störfum lögreglunnar sem hann segir að sé í erfiðu og vanþakklátu hlutverki við að sinna skyldum sínum við stjórnvöld og almenna borgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert