Maðurinn ekki talinn alvarlega slasaður

Rauðfellsgjá er vinsæll ferðamannastaður á sunnanverðu Snæfellsnesi. Myndin er úr …
Rauðfellsgjá er vinsæll ferðamannastaður á sunnanverðu Snæfellsnesi. Myndin er úr safni og var tekin árið 2022. mbl.is/Þorsteinn

Betur fór en á horfðist þegar snjóhengja féll yfir ferðamann við Rauðafeldsgjá á Snæfellsnesi á ellefta tímanum í morgun. 

Þetta segir Kristján Ingi Hjörvarsson, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjóns á Vest­ur­landi, í samtali við mbl.is. 

Um er að ræða erlendan ferðamenn sem var á gangi í gjánni í hópi félaga sinna þegar snjóhengja fellur yfir hann og hann grefst undir henni. 

„Þeir sem voru með honum grófu frá honum og hann lét nokkuð vel af sér og var ekki talin alvarlega slasaður þarna á vettvangi,“ segir Kristján en bætir við að maðurinn hafi verið fluttur með sjúkrabíl og sé kominn undir læknishendur. 

Hætturnar leynast víða

Spurður hvort hætta sé á svæðinu og hvort gera þurfi ráðstafanir í þá veru kveðst Kristján ekki hafa upplýsingar þess efnis. Hann bætir þó við að víða leynist hættur og þegar fólk sé komið inn í gil þá geti verið hrunhætta. 

Um er að ræða vinsælan ferðamannastað á sunnanverðu Snæfellsnesi og er gjáin aðgengileg, en gengið er upp að gjánni um stíg frá bílastæðinu nokkru neðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert