Meiri óánægja yfir gjaldskyldu í austurhluta borgarinnar

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hefur látið …
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hefur látið bílastæðamál borgarinnar sig mikið varða. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það kom mér á óvart en það hafa allir skoðun á þessu. Ef það er eitthvað sem allir hafa skoðun á þá eru það bílastæðamálin í Reykjavík,“ segir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í samtali við mbl.is.

Hún lagði nýverið fram könnun á eigin vegum á samfélagsmiðlum þar sem hún spurði íbúa Reykjavíkur hvað þeim fyndist um bæði lengingu gjaldskyldutíma bílastæða í Reykjavík og framlengdra gjaldskyldra svæða. Könnunin birtist á hverfissíðum Reykjavíkur á Facebook.

Telur mikilvægt að borgarfulltrúar tali meira við íbúa

Spurð hvað hún ætli sér að gera við niðurstöðurnar segir Ragnhildur að hún muni kynna þær fyrir samstarfsfélögum sínum og upplýsa þá um hvað íbúum borgarinnar finnist um gjaldskylduna og gjaldskyldusvæðin. Því næst ætlar hún sér að búa til „helling af tillögum“ sem hún mun leggja fyrir borgarstjórn í haust.

„Mér finnst að við ættum að gera meira af þessu, borgarfulltrúarnir. Vera með beina tengingu við íbúa, fá þeirra skoðanir á málunum og koma þeim áleiðis,“ segir Ragnhildur og bætir við að með þessu sé hún að prófa eitthvað nýtt og koma einhverju góðu áleiðis.

„Ég fékk mörg hundruð, um 500, ábendingar frá fólki. Fólk hefur sko sterkar skoðanir á gjaldskyldumálum og þarna gaf það mér innsýn í hvað virkar og hvað ekki og voru þarna margar frábærar tillögur sem ég ætla líka að leggja fyrir borgarstjórn,“ bætir hún við.

Gjaldskylda fer misvel í íbúa borgarinnar.
Gjaldskylda fer misvel í íbúa borgarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Málefni sem liggur þungt á fólki

Hugmyndin að könnuninni kviknaði þegar Ragnhildur ræddi við nágranna sína um þéttingarreiti í hverfi þeirra. Þá höfðu þeir einnig mikinn áhuga á að ræða við hana um bílastæðamálin í miðbænum og gamla Vesturbænum.

„Þetta er greinilega eitthvað sem liggur þungt á fólki en það er samt mismunandi hvað fólk er ósátt við,“ segir Ragnhildur og spyr sig að því af hverju það skyldi vera mismunandi.

Meiri óánægja í austurhluta borgarinnar

„Það eru fleiri óánægðir en ánægðir og ég er með það marga þátttakendur þvert á hverfi og það er ekki mikill munur á milli hverfanna,“ segir Ragnhildur en bætir þó við að í austurhluta borgarinnar sé fólk óánægðara, en í vestari hlutanum sé ánægjan meiri, þrátt fyrir að á heildina litið séu fleiri óánægðir með breytingu á bílastæðamálum Reykjavíkur.

Ástæðan að baki því segir hún hljóta að liggja í því að fólk sem býr austarlega borginni reiði sig meira á bílinn en íbúar vesturhlutans.

Fólk mest ósátt við sunnudagsgjaldskylduna

„Það er verið að ýta vandanum á nágrannann, eða það er allavega upplifun fólks,“ segir Ragnhildur og á við þá sem búa við hliðina á gjaldskyldusvæðunum og hvernig þeim gangi að finna stæði eftir breytinguna.

Hún segir að fólk sé hvað mest ósátt við sunnudagsgjaldskylduna. Jafnvel þeir sem eru sáttir heilt yfir með gjaldskylduna, segir hún vera ósátta við sunnudagsgjaldskylduna.

„Mér finnst það vera eitthvað sem við þurfum að skoða,“ bætir hún við.

Rúmlega 2000 manns hafa tekið þátt í könnuninni

„Ég fékk bilaðslega mörg svör, rúmlega 2000 manns sem tóku þátt og var um fjórðungur þeirra úr vestari hluta borgarinnar,“ segir Ragnhildur.

„Það skipti ekki máli hvar fólk skilgreinir sig pólitískt, það voru bara einhvern veginn allir sammála um að það væri allt í volli í bílastæðamálum í Reykjavík,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert