Meirihlutinn sprunginn í Þingeyjarsveit

Frá Laugum í Reykjadal.
Frá Laugum í Reykjadal. mbl.is/Einar Falur

Meirihlutinn í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar er sprunginn. Á bæjarstjórnarfundi í dag var tilkynnt um að meirihlutasamstarfi E-listans væri lokið vegna „vegna alvarlegs trausts- og trúnaðarbrests á milli fulltrúa meirihlutans“.

Þetta kom fram í bókun þriggja bæjarfulltrúa E-listans.

Í Þingeyjarsveit eru 9 bæjarfulltrúar og tveir listar. E-listinn skipaði meirihlutann með 5 bæjarfulltrúa og minnihlutann skipuðu fjórir bæjarfulltrúar K-listans.

Nýr meirihluti hefur verið myndaður af K-listanum, Gerði Sigtryggsdóttur (E-listi) og Knúti Emil Jónassyni (E-listi).

Í bókuninni kemur fram að oddviti og varaoddviti sveitarstjórnar, tveir af fimm bæjarfulltrúum E-listans, hafi í þrígang kosið gegn hinum þremur bæjarfulltrúum E-listans og með K-listanum.

Kusu þrisvar sinnum gegn meirihlutanum

Fyrst kusu Gerður og Knútur gegn þremenningunum um frestun á afgreiðslu samstarfssamnings við K-listann og svo kusu þau gegn þremenningunum þegar þeir óskuðu eftir frestun á kjöri oddvita K-lista til embættis formanns byggðarráðs.

Þann 12. júní gengu Gerður og Knútur svo til liðs við K-listann í atkvæðagreiðslu um tillögu sem K-listinn lagði fram, gegn atkvæðum þremenninganna í E-listanum. Sú tillaga beinir því inn í endurskoðun aðalskipulags að Skjálfandafljót verði ekki virkjað.

„Það er dapurlegt að svona skuli komið en það virðist vera að þeirra hugur standi frekar til þess að eiga samstarf við fulltrúa K-listans heldur en okkur sveitarstjórnarfulltrúa E-listans. Það er okkar trú að meirihlutasamstarf byggist á trausti og trúnaði milli aðila. Það er ekki lengur til staðar,“ segir í bókun þremenninganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert