Móðir Dagbjartar: Mjög skýr, klár og ákveðin kona

Arn­ar Kor­mák­ur Friðriks­son, verj­andi Dag­bjart­ar, er til vinstri. Fjölmiðlum var …
Arn­ar Kor­mák­ur Friðriks­son, verj­andi Dag­bjart­ar, er til vinstri. Fjölmiðlum var ekki heimilt að taka myndir af Dagbjörtu þegar hún mætti til skýrslutöku á miðvikudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hún reif hann upp af götunni,“ sagði móðir Dagbjartar Guðrúnar Rúnarsdóttur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur síðdegis í gær er hún bar vitni í máli dóttur sinnar. Dagbjört er grunuð um að hafa orðið manni á sextugsaldri að bana í september.

Í dag er síðasti dagur í aðalmeðferð málsins. Nokkur vitni koma fram fyrir dómi áður en málflutningur verjenda og sækjanda fer fram síðdegis. Gera má síðan ráð fyrir að dómur falli í málinu fyrir sumarlokun dómsins í lok júlí. Dagbjört gæti átt yfir höfði sér tíu ára fangelsi.

Auk móður Dagbjartar kom sambýlismaður hennar og vinur Dagbjartar fram fyrir dómi síðdegis í gær. Engin af þeim kannaðist við að hún hefði beitt manninn ofbeldi. Hún ætti það þó til að „skamma hann hressilega“ vegna mikillar drykkju hans og tala illa um hann.

Móðir hennar sagði að þau hefðu verið almennileg við hvort annað. Dagbjört hefði hugsaði um hann, en ekki öfugt. Þau ættu það þó til að kýta og vera með fíflagang.

„Ósjálfbjarga barn“

Móðir Dagbjartar lýsti sambandi parsins sem vinasambandi, líkt og hún gerði sjálf fyrir dómi. Hann dvaldi mikið hjá henni, en var ekki eiginlegur sambýlismaður.

Móðirin og sambýlismaður hennar bjuggu í íbúð mannsins í Grafarholti sem hann hafði af leigu. Að sögn móðurinnar vildi hann ekki vera þar og dvaldi því að mestu hjá Dagbjörtu í Bátavogi í Vogabyggð.

Móðirin sagði að Dagbjört hefði og hugsað vel um manninn og lýsti sambýlismaður hennar manninum sem „ósjálfabjarga barni“. Hann sagðist ekki hafa skilið af hverju Dagbjört vildi umgangast manninn svo mikið.

Mátti ekki vera vín á glámbekk

Maðurinn var mikill drykkjusjúklingur og sagði sambýlismaðurinn að hann hefði varla getað staðið í lappirnar. Dagbjört sagði maðurinn hefði verið „sídettandi“.

Móðir hennar sagði einnig fyrir dómi að maðurinn hefði mikið dottið og að það hefði ekki verið eðlilegt. Hún sagði að þau hefðu velta því fyrir sér hvort það væri eitthvað meira að hjá honum en drykkjusýkin.

Þá sagði móðir hennar að maðurinn gæti verið leiðinlegur í skapinu ef hann væri mjög fullur.

Sambýlismaður hennar lýsti því þannig að maðurinn hafði verið haldinn miklum ranghugmyndum. „Það var allt í hershöndum þar sem hann var,“ sagði hann og bætti við að hvergi mátti vera vín á glámbekk.

Miður sín yfir hundinum

Móðir Dagbjartar og sambýlismaður hennar hittu Dagbjörtu og manninn helgina áður en maðurinn lést er þau dvöldu saman í sumarbústað.

Móðirin sagði að ástandið á manninum hefði verið eins og vanalega, þ.e.a.s. hann var í glasi og var frekar slappur.

Næst heyrðu þau frá Dagbjörtu á miðvikudegi eða fimmtudegi. Þá töluðu þau um að Dagbjört og maðurinn ætluðu aftur að koma í sumarbústaðinn.

Móðirin minntist hins vegar á að dóttir hennar hefði verið miður sín yfir því að hundur hennar væri dauður. Helgina sem maðurinn lést ásakaði Dagbjört hann meðal annars um að hafa eitrað fyrir hundinum. Móðirin sagði hins vegar að Dagbjört hefði ekki minnst á það þegar hún ræddi við hana um miðbik vikunnar.

Feimin og róleg sem barn

Spurð hvernig Dagbjört var sem barn hafði móðir hennar ekkert óvanalegt að segja um dóttur sína.

Hún sagði hana hafa verið rólega og feimna, gengið vel í skóla og átt vini. Þá sagði hún hana ekki hafa verið ofbeldisfulla.

Síðar meir greindist Dagbjört með ADHD sem móðir hennar sagði að hefði ekki komið sér mjög á óvart. Dagbjört hefði verið ör er hún stálpaðist.

Spurð hvort að hún gæti orðið pirruð svaraði móðir hennar játandi þar sem það hefði gengið á ýmsu hjá henni.

Hún sagði að í dag væri dóttir hennar mjög skýr, klár og ákveðin kona. Sambýlismaður móður hennar hafði sömu sögu að segja um Dagbjörtu. Hann sagði að hún væri ósköp venjuleg manneskja, vel lesin, ætti ekkert sérstaklega erfitt með einbeitingu og væri lítil drykkjumanneskja.

Þá sagðist hann ekki hafa tekið eftir neinum minnisgloppum hjá henni, en Dagbjört bar minnisleysi mikið fyrir sig í skýrslutöku fyrir dómi.

„Vertu nú góð“

Vinur Dagbjartar sem heimsótti hana í Bátavoginn eftir að maðurinn var fluttur látinn með sjúkrabíl bar einnig vitni fyrir dómi í gær. Annar maður sem fór í heimsóknina gaf skýrslu fyrir dómi á miðvikudag.

Maðurinn sagðist hafa þekkt Dagbjörtu lengi en ekki verið í miklu sambandi við hana í nokkur ár. Því varð hann mjög hissa þegar hún hringdi í hann að kvöldi 23. september. Þá þekkti hann aðeins hinn látna frá gamalli tíð.

Dagbjört hafði samband við hann fyrr um kvöldið í mikilli geðshræringu. Vinurinn heyrði í símtalinu að maðurinn væri verkjaður og hefði því sagt við Dagbjörtu: „Vertu nú góð við [manninn] Dagbjört“.

Hún hringdi síðan aftur nokkru síðar. Þá sagðist vinurinn ætla að koma til hennar eins fljótt og hann gæti. Hann sagði fyrir dómi að hann hefði haldið að um „fylleríslæti“ væru að ræða.

Úr varð að hann og vinur hans, sem þekkti Dagbjörtu ekki, heimsóttu hana í Bátavog eftir að maðurinn hafði verið fluttur látinn með sjúkrabíl.

Aldrei séð hana í svona ástandi

Maðurinn sagði að mikið „panik ástand“ hefði tekið við þeim. Dagbjört hefði gengið um gólf kófsveitt og tekið hundinn sinn úr frystinum, þar sem hún geymdi hann, og otað honum að þeim.

„[Ég] fékk hálfgert sjokk ... hef aldrei séð hana í svona ástandi ... hún var virkilega ólík sjálfum sér,“ sagði vinurinn fyrir dómi.

Dagbjört sagðist vera handviss um maðurinn hefði drepið hundinn. Félagarnir fengu hins vegar ekki að vita af andláti mannsins.

„[Mér] óráði ekki fyrir því að hann væri látinn,“ sagði maðurinn. Hann sagðist þó telja að Dagbjört hefði verið í paniki vegna dauða hundsins og mannsins. Hún gaf ekki frá sér bein svör við því hvað væri í gangi, önnur en að maðurinn hefði drepið hundinn.

Félagarnir báðu Dagbjörtu að leggja hundinn frá sér og róa sig niður.

Líka hundurinn hans

Vinur Dagbjartar sagðist ekki trúa því upp á manninn að hann hefði drepið hundinn. Hann lýsti manninum sem „ágætis karli“ sem var þó drykkfelldur.

„Þau bjuggu saman og þetta var hundurinn hans líka,“ sagði hann og bætti við að hinn látni hefði ekki verið maður sem drepur hunda.

Þá minntist vinurinn á að hundurinn hefði verið gamall. Dagbjört sagði fyrir dómi að hann hefði verið 14 ára gamall og vildi þá meina að hundurinn hefði dáið úr elli, engu öðru.

Sneri upp á eyrun hans

„[Ég] hef ekki trú á því – þekkjandi Dagbjörtu – að hún hefði drepið hvorki [manninn] eða hundinn,“ sagði vinur hennar.  

Hann sagðist hafa séð hana snúa upp á eyrun á hinum látna tvisvar eða þrisvar.

Réttarlæknir lýsti því fyrir dómi í gær að maðurinn hefði verið með svokölluð blómkálseyru. Það vísar í útlit eyrna sem hafa aflagast vegna endurtekinna högga eða áverka og er nokkuð algengt meðal þeirra sem stunda bardagaíþróttir.

Vinur hennar sagðist hafa vitað til þess að þau rifust og Dagbjört ætti það til að tala illa um hann. Annars hefði hann aldrei séð hana beita hann ofbeldi, og ekki heldur séð manninn beita Dagbjörtu ofbeldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert