Parísarhjólið óvinsælt meðal landsmanna

Parísarhjólið er við Reykjavíkurhöfn.
Parísarhjólið er við Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Björn Jóhann Björnsson

Aðeins 15 prósent landsmanna telja líklegt að þeir fari í parísarhjólið á Miðbakka í sumar en 73 prósent Íslendinga hefur ekki slíkan áhuga á hjólinu.

Þetta kemur fram í niðurstöðum úr könnun sem Prósent framkvæmdi dagana 20. til 27. júní á áhuga Íslendinga á parísarhjólinu við Reykjavíkurhöfn. Hjólið var reist fyrr í mánuðinum sem tilraunaverkefni til eins sumars.

Umdeild hugmynd

Parísarhjólið á Miðbakka hefur vakið mikla athygli en skoðanir landsmanna á tækinu hafa verið skiptar síðan hugmyndin var sett fram á síðasta ári. Lesa má úr niðurstöðum könnunarinnar að parísarhjólið njóti ekki vinsælda meðal landsmanna en mikill meirihluti landsmanna telur ólíklegt að hann muni fara í hjólið.

Foreldrar hafa mestan áhuga

Sá aldurshópur sem hefur mestan áhuga á að fara í parísarhjólið er fólk á aldursbilinu 35-44 ára og eru þau sem eru með tvö eða fleiri börn á heimili líklegri til að prófa tækið en þau sem eru ekki með neitt barn á heimili.

Íbúar Reykjavíkur eru þá líklegri til að fara í parísarhjólið en þeir sem búa á landsbyggðinni, en 22 prósent Reykvíkinga hafa áhuga á að fara í hjólið á meðan aðeins átta prósent þeirra sem búa á landsbyggðinni telja líklegt að þau muni prófa það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert