Rækta rabarbara innanhúss fyrir norðan

Fyrsta innanhússræktun á rabarbara er í undirbúningi í Húnaþingi vestra.
Fyrsta innanhússræktun á rabarbara er í undirbúningi í Húnaþingi vestra. mbl.is/Sigurður Bogi

Í Húnaþingi vestra er hafin uppbygging á innanhússræktun á rabarbara. Engin dæmi eru um að þessi ræktunaraðferð hafi áður verið notuð hérlendis.

Friðrik Már Sigurðsson og fyrirtæki hans Framhugsun ehf. fara fyrir verkefninu sem hlaut nýverið styrk úr Atvinnu- og nýsköpunarsjóði Húnaþings vestra.

Rabarbari er notaður bæði í matvælaframleiðslu og bakstri.
Rabarbari er notaður bæði í matvælaframleiðslu og bakstri. mbl.is/Getty Images

Ræktaður í myrkri

Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu verður rabarbarinn ræktaður í myrkvuðu umhverfi og með þeirri aðferð er stefnt að því að auka sætleika, lit og bragðgæði stönglanna. Einnig næst fram lengri uppskerutími með auknu magni og meiri gæðum afurðanna.

Aukin gæði rabarbarans opna ný tækifæri til verðmætrar nýtingar, svo sem í matvæla- og drykkjarframleiðslu.

Ensk fyrirmynd

Rabarbari hefur verið ræktaður með þessum hætti í Yorkshire á Englandi í áratugi. Ástæða þess að farið var að stunda þessa ræktun á Englandi upp úr 1880 var skortur á ávöxtum og grænmeti, en hægt var nýta ferskan rabarbara úr myrkvaðri ræktun lengur yfir árið.

Í dag fer nánast öll framleiðslan á Englandi beint til veitingahúsa, til matvælaframleiðslu, til framleiðslu á drykkjum eins og gini, víni eða safti, eða er fluttur beint úr landi.

Framkvæmdir hefjast í haust

Húsnæði ásamt aðstöðu fyrir ræktunina er í uppsetningu og gert er ráð fyrir að það verði tilbúið fyrir komandi haust. Markmiðið er að hefja framleiðslu vorið 2025, þótt fullum afköstum verði ekki náð fyrr en vorið 2026.

Fram undan er að undirbúa og blanda jarðveg, setja upp vökvunarkerfi og standsetja rými til vinnslu og pökkunar.

Auknar tekjur og störf í Húnaþingi vestra

Verkefninu er ætlað að auka tekjur af frumframleiðslu og skapa störf í Húnaþingi vestra, bæði í frumframleiðslu og tengdri starfsemi. Þetta nýja verkefni mun færa nýja vöru á markaðinn og gefa möguleika á stækkun í takt við eftirspurn. Einnig eru góðir möguleikar á afleiddum verkefnum tengdum áframvinnslu á rabarbaranum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert