Sagðist ætla að fara frá Dagbjörtu nokkrum dögum áður

Arnþrúður Þór­ar­ins­dótt­ir, sak­sókn­ari hjá héraðssak­sókn­ara, er til hægri á mynd­inni. …
Arnþrúður Þór­ar­ins­dótt­ir, sak­sókn­ari hjá héraðssak­sókn­ara, er til hægri á mynd­inni. Dagbjört var einungis viðstödd dómþing er skýrslutaka hennar fór fram á miðvikudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kunningjar Dagbjartar Guðrúnar Rúnarsdóttur og mannsins sem hún er ákærð fyrir að hafa svipt lífi sögðu að maðurinn hefði ætlað að fara frá Dagbjörtu stuttu áður en hann lést.

Parið bar vitni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í Bátavogsmálinu, en þau sem umgengust Dagbjörtu og manninn dagana áður en hann lést 23. september.

Parið var í neyslu á þeim tíma og greindu frá því fyrir dómi að Dagbjört hefði fengið sér amfetamín með þeim sólarhringinn áður en maðurinn dó. Amfetamín fannst í blóði Dagbjartar eftir að hún var handtekinn, en hún tók einnig ADHD lyf samkvæmt læknisráði.

Hafði sambönd í undirheimunum

Konan hafði þekkt Dagbjörtu frá unglingsárum og sagði hana verið góða vinkonu sem hjálpaði parinu mikið. Þá þekkti hún hinn látna og sagði að sér hefði þótt vænt um hann. Hún sagði málið vera mikinn harmleik.

Parið hafði verið heimilislaust og hafði Dagbjört leyft þeim að dvelja í íbúðinni í Bátavogi. Þar hefðu þau stundum neytt amfetamíns.

Maðurinn sagði fyrir dómi að Dagbjört hefði verið venjuleg kona út á við. Hún hefði þó haft sambönd í undirheimunum og selt eitthvað af fíkniefnum. Konan sagði að Dagbjört hefði aldrei verið „á kafi“ í fíkniefnum og lét þau ekki endilega stjórna lífi sínu.

Var orðinn hræddur

Parið sagðist óvisst hvort að samband Dagbjartar við manninn hefði verið ástarsamband, en maðurinn sagði að það hefði verið furðulegt. Þau hefðu verið góðir vinir sem sváfu í sama rúmi.

Maðurinn sagði að Dagbjört hefði átt það til að beita hinn látna ofbeldi, aðallega andlegu. Maðurinn hefði aldrei beitt Dagbjörtu ofbeldi.

Í skýrslutöku lögreglu sagði maðurinn að hinn látni hefði sagst ætla fara frá Dagbjörtu. Þeir hefðu talað um að fara til útlanda eða annað slíkt. Vitnið sagðist þó ekki hafa tekið mjög mikið mark á honum þar sem maðurinn hefði oft sagt allskonar.

Konan sagði fyrir dómi að maðurinn hefði verið orðinn hræddur og því talað um að fara frá Dagbjörtu.

Mjög hátt uppi

Stuttu áður en maðurinn dó kom parið í íbúðina í Bátavogi.

Maðurinn sagði að Dagbjört hefði þá verið í miklu uppnámi og að hann hefði aldrei séð hana í slíku ástandi.

Dauður hundur hennar var uppi á borði og Dagbjört sakaði manninn um að hafa drepið hundinn. Maðurinn stakk upp á að hún geymdi hundinn í frystinum sem hún svo gerði.

Konan sagði að Dagbjört hefði verið undir miklum áhrifum af amfetamínneyslu og ekki lík sjálfri sér. Þá var hún mjög reið yfir dauða hundsins.

Sparkaði í höfuð brotaþola

Maðurinn sá Dagbjörtu sparka í höfuð brotaþola er hann lá í rúmi. Hann stoppaði hana af þar sem maðurinn gerði ekkert sér til varnar. Greinilegir áverkar sáust á manninum, að sögn vitnisins.

Parið sagðist síðan hafa haldið að Dagbjört og maðurinn hefðu sæst þar sem að þau föðmuðust og grétu áður en parið fór úr íbúðinni. Þau sáu því ekki ástæðu til þess að kalla til lögreglu.

„Var eins og það var allt gott,“ sagði konan á einum tímapunkti fyrir dómi.

Aðalmeðferð í málinu lýkur síðdegis í dag með málflutningi sækjenda og verjenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert