Skilar skömminni til kirkjuþings

Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands kveðst hafa fengið að finna fyrir því að vera fyrsta konan sem gegnir embætti biskups Íslands. Hún segist hafa verið beitt órétti og lýsir niðurlægingunni sem hún upplifði þegar umboð hennar til embættisins var dregið í efa. 

Þessu lýsir Agnes í viðtali við Heimildina þar sem farið er yfir víðan völl og til að mynda fjallað um líðan Agnesar í tengslum við ráðningu hennar í embættið, í kjölfar þess að skipunartími hennar rann út í júní 2022, en störf hennar frá þeim tíma hafa verið sögð markleysa ein. 

Staða biskups þurfi að vera skýr

Það var framkvæmdastjóri Biskupsstofu sem gerði ráðningarsamning við Agnesi í kjölfar þess að skipunartími hennar rann út. Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar komst síðar að þeirri niðurstöðu að embættisverk Agnesar frá þeim tíma hefðu verið markleysa ein.

Í úrskurðinum er horft til þess að á kirkjuþingi í mars 2022 hafi verið samþykkt heimild til biskupskjörs en engin kosning farið fram. Um er að ræða endanlegan og bindandi úrskurð innan þjóðkirkjunnar og því hefur Agnes íhugað að vísa málinu til dómstóla. 

Helst hefði hún þó viljað að kirkjuþing myndi greiða úr málinu og eyða óvissu um stöðu hennar. Þetta hafi ekki snúist um stöðu hennar sem persónu heldur stöðu biskups sem þurfi að vera skýr. 

Eina leiðin að fara með málið til dómstóla

Eins og gefur að skilja hélt Agnes ótrauð áfram að sinna embættisverkum þegar gerður hafi verið ráðningarsamningur við hana. Verkefnin fólust meðal annars í því að framlengja leyfi séra Gunnars Sigurjónssonar sem hafði verið settur í leyfi sóknarprests vegna kynferðislegrar áreitni. 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var sú að Agnes hefði ekki haft umboð til að framlengja leyfið hans og segir Agnes í samtali við heimildina að nú sé ekkert annað að gera en að fara með málið fyrir dómstóla. 

Aldrei gerst ef hún væri karlmaður 

Agnes segir það að hún sé kona ástæðu þess að málið hafi farið ótal hringi innan kirkjunnar og kveðst þess nokkuð viss að samskonar mál hefði aldrei komið upp ef um karlmann hefði verið að ræða. 

Þá kveðst hún hafa verið niðurlægð af kirkjuþinginu og vill skila skömminni þangað, enda segir hún vinnubrögð þingsins fyrir neðan allar hellur og bindur vonir við að samskonar mál komi aldrei aftur upp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka