Sofnaði við akstur þegar 50 ára gömul kona lést

Húsbíllinn í kjölfar slyssins.
Húsbíllinn í kjölfar slyssins. Skjáskot/Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Meginorsök banaslyss á Snæfellsnesvegi síðasta sumar var sú að ökumaður bifreiðar sofnaði við akstur, ók yfir á gagnstæðan vegarhelming og framan á húsbíl sem ekið var úr gagnstæðri átt. Hafði ökumaðurinn, sem var ferðamaður, illa sofið fyrir Íslandsferðina og lítið sólarhringana fyrir slysið.

Þetta kemur fram í niðurstöðu Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Slysið varð 17. júlí í fyrra, norðan við Hítará. Farþegi í húsbílnum sem kom á móti, 50 ára gömul kona og slóvensk­ur rík­is­borg­ari, lést sam­stund­is. Hún var ekki spennt í sætisbelti. Ökumaður bif­reiðar­inn­ar og ann­ar farþegi, sem eru einnig slóvensk­ir rík­is­borg­ar­ar, slösuðust.

Bundið slitlag ekki samræmi við hönnunarreglur

Önnur orsök fyrir slysinu sem gefin er upp í skýrslunni er sú að breidd bundins slitlags hafi ekki verið í samræmi við gildandi hönnunarreglur.

„Klæðning vegarins á slysstað var lögð 2017 en breidd bundins slitlags var undir því sem gildandi hönnunarreglur Vegagerðarinnar, frá 2010 og 2011, fyrir stofnvegi segja til um.“

Harður árekstur

Húsbíllinn var af gerðinni Fiat Weinsberg. Var bifreiðinni ekið suðaustur Snæfellsnesveg skammt norðan við Hítará. Á sama tíma var Nissan X-Trail fólksbifreið ekið úr gagnstæðri átt norðvestur Snæfellsnesveg.

Nissan bifreiðinni var ekið yfir á rangan vegarhelming og framan á Fiat bifreiðina í hörðum árekstri. Þrír farþegar voru í Fiat bifreiðinni auk ökumanns og lést farþegi í aftursæti í slysinu.

Í Nissan bifreiðinni voru þrír í bílnum og allir voru þeir spenntir í öryggisbelti. Allir hlutu áverka en farþegar í aftursæti og framsæti hlutu alvarlega áverka og voru fluttir á sjúkrahús með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Var einnig um ferðamenn að ræða.

Yfirlitsmynd af akstursstefnu bifreiðanna. Á leið Nissan fólksbifreiðarinnar var mjúk …
Yfirlitsmynd af akstursstefnu bifreiðanna. Á leið Nissan fólksbifreiðarinnar var mjúk vinstri beygja. Skjáskot/Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Var illa sofinn

Fram kemur í skýrslunni að ökumaður Nissan bifreiðarinnar hafi verið illa sofinn fyrir áreksturinn.

„Eftir að ferðalagið hófst á Íslandi og þar til slysið varð liðu um 55 klukkustundir. Á því tímabili kvaðst ökumaður hafa sofið í tvær nætur, þá fyrri í 7 klukkustundir eftir 36 klukkustunda vöku og seinni nóttina í um 5,5 klukkustundir eftir um 18,5 klukkustunda vöku. Einnig kvaðst ökumaðurinn hafa unnið mikið og sofið lítið vikuna fyrir Íslandsferðina,“ segir í skýrslunni. 

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að flýta fyrirhuguðu átaki um forvarnir vegna svefns og þreytu ökumanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert