Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, lögfræðingur og þingmaður Framsóknarflokksins, mætti ásamt Arnari Sigurðssyni, eiganda Sante, í nýjasta þátt af Spursmálum sem sýndur var hér á mbl.is fyrr í dag og tekist var á um núgildandi áfengislög með líflegum hætti.
Upptöku af þættinum má nálgast í spilaranum hér að neðan, á Spotify og Youtube og er öllum aðgengilegur.
Síðustu misseri má segja að stjórnvöld hafi teflt gildum áfengislögum í tvísýnu eftir að ÁTVR höfðaði mál gegn smásölu áfengis á netinu sem síðar var vísað frá.
Samkvæmt lögum er smásala áfengis óheimil öðrum en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins á grunni einkaleyfis, en með tilkomu netverslana hefur aðgengi að áfengi aukist til muna. Því þykja lagabreytingar á áfengislögum orðnar tímabærar samhliða samfélagsþróun og breyttu neyslumynstri.
Í þessu samhengi eru skiptar skoðanir í samfélaginu á auknu aðgengi áfengis. Margir hafa lýst yfir áhyggjum sínum á því að smásala áfengis í netverslun verði heimiluð á grundvelli forvarna- og lýðheilsusjónarmiða. Á sama tíma halda aðrir því fram að ákall þjóðarinnar eftir breytingum á áfengislögum sé áþreifanlegt þar sem neysluvenjur hafi breyst með tíð og tíma og stafrænt umhverfi sömuleiðis.
Óhætt er að segja að fjölbreytt fréttavika sé að baki. Til að fara yfir það sem helst dró til tíðinda í vikunni sem senn er á enda mættu þau Jón Axel Ólafsson, útvarps- og athafnamaður, og Fanney Birna Jónsdóttir, dagskrárstjóri Rásar 1, í settið. Létu þau í ljós skoðanir sínar á þeim stóru málum sem varða samfélagið og í raun heimsbyggðina alla þar sem fyrstu forsetakappræður Donalds Trump og Joes Biden báru helst á góma.
Eftir viðburðaríka mánuði frá því Spursmál hófu göngu sína síðastliðið haust fer þátturinn í sumarfrí fram til föstudagsins 16. ágúst. Þann dag hefst hefðbundin dagskrá aftur að loknu fríi - ekki missa af því.