„Þetta er farið að kosta félagið helvíti mikla peninga“

Skotfélag Reykjavíkur fær að stunda skotæfingar á Álfsnesi til 2028. …
Skotfélag Reykjavíkur fær að stunda skotæfingar á Álfsnesi til 2028. Framkvæmdastjóri félagsins bindur þó vonir um að félagið fái að vera þar lengur. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Loksins er málið komið í þann farveg að borgin getur löglega nýtt svæðið á Álfsnesi undir skotæfingar, þannig hægt sé að halda áfram að stunda íþróttina. Þetta segir Guðmundur Kr. Gíslason, framkvæmdastjóri Skotfélags Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Í breytingum við aðalskipulag Reykjavíkur var samþykkt að skotæfingasvæðið á Álfsnesi fái að starfa áfram til ársins 2028, en samhliða þeim hefur verið ákveðið að finna skotæfingasvæðinu nýjan stað til að mæta sjónarmiðum íbúa svæðisins sem hafa kvartað undan hávaða af sökum skotæfinganna.

„Að það skuli vera hægt að skella í lás á svona starfsemi sem hefur verið hér í Reykjavíkurborg síðan 1867 er ansi gróflega farið,“ segir Guðmundur og bætir við að enginn fyrirvari hafi verið veittur við þeim lokunum sem félagið hefur staðið frami fyrir núna.

Allar mælingar hafi verið undir hávaðamörkum

Guðmundur segir félagið hafa komið til móts við íbúa svæðisins áður. Segir hann að á sunnudögum sé bannað að skjóta og á laugardögum megi bara æfa til klukkan fjögur. Þá sé skotið þrjá daga í viku og lokað lukkan sjö.

Allar mælingar sem hafa átt sér stað af Reykjavíkurborg eða heilbrigðiseftirlitinu hafa verið undir hávaðamörkunum fullyrðir Guðmundur.

Segir jafn mikla truflun frá þeim og umferðinni

Tvö æfingasvæði eru á þessu svæði og á því sem er nær Reykjavík voru gerðar háar manir til að reyna draga úr hugsanlegum truflunum á hávaða segir Guðmundur.

„Truflun upp í byggðina er hverfandi og við þekkjum það, að það eru margir af okkar félagsmönnum og iðkendum sem búa í byggðinni í kring,“ bætir hann við.

„Það er jafn mikil truflun á þessu og kannski af umferðinni, en það er nú önnur saga,“ segir Guðmundur.

Sér fram á opnun á Álfsnesi í haust

Guðmundur segir æfingasvæðið á Álfsnesi hafa verið lokað í um þrjú ár, með nokkrum minni opnunum inni á milli, sem enda þó alltaf með að öllu sé skellt í lás á ný.

„Ég horfi á miðjan september, byrjun október, tel það raunhæft,“ segir Guðmundur, spurður hvenær hann sjái fyrir að skotæfingar hefjist á ný á Álfsnesi.

Maður að stunda skotæfingar.
Maður að stunda skotæfingar. mbl.is/Styrmir Kári

Lokunin reynist félaginu dýrkeypt

„Þetta er farið að kosta félagið helvíti mikla peninga,“ segir Guðmundur. Fólk hefur þurft að æfa á skotæfingasvæðum í Keflavík, Þorlákshöfn og Akranesi svo fátt eitt sé nefnt.

Þrátt fyrir lokunina sé Skotfélag Reykjavíkur að sinna hlutverkum, eins og að þjálfa nýja skotvopnaleyfishafa, en um 400 til 500 manns á ári hverju fara í þjálfun hjá þeim. 

„Við erum stolt af þessu félagi og ætlum að reyna að berjast fyrir því að það verði á þessum stað áfram,“ segir Guðmundur.

Sameinað skotsvæði á sé fráleitt

„Við erum með þá skoðun innan félagsins að þetta sé framtíðarstaðsetningin,“ segir Guðmundur, vongóður um að æfingar félagsins fái að vera áfram á Álfsnesi um ókomna tíð.

Guðmundi finnst hugmynd sem upp hefur komið um að sameina æfingasvæði allra skotfélaga landsins á einn stað fráleit. 

Honum finnst sameinað æfingasvæði vera draumórakennd hugmynd og talar fyrir mikilvægi þess að skotæfingafélög landsins geti haft eigin aðstöðu í sinni heimabyggð. Guðmundur bætir við að sameinað æfingasvæði myndi gera það að verkum að útséð yrði með iðkun íþróttarinnar, því hún myndi þá lokast yfir vetrartímann, en félagið gengur undir því að hafa opið allan ársins hring þegar veður og birta leyfa til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert