Unnur Anna nýr forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ

Unnur Anna Valdimarsdóttir.
Unnur Anna Valdimarsdóttir. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við Læknadeild Háskóla Íslands, hefur verið ráðin nýr forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands frá 1. júlí. Tekur hún við starfinu af Unni Þorsteinsdóttur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Unnur Anna lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og doktorsprófi í klínískri faraldsfræði árið 2003 frá Karolinska Institutet í Stokkhólmi. Hún starfaði sem dósent við Læknadeild Háskóla Íslands 2007-2012 og sem prófessor við sömu deild frá árinu 2012. Unnur Anna hefur frá 2013 gegnt stöðu gestaprófessors við Harvard Chan School of Public Health og 2015-2021 gegndi hún stöðu gestaprófessors við Karolinska Institutet. Frá árinu 2022 hefur hún gegnt stöðu rannsakanda (e. senior researcher) við þá stofnun.

Unnur Anna var forstöðukennari þverfræðilegs meistara- og doktorsnáms í lýðheilsuvísindum frá stofnun þess árið 2007 og til ársins 2017. Árin 2013-2017 var Unnur Anna varadeildarforseti Læknadeildar og þá sat hún í Vísinda-og tækniráði 2019-2022. Enn fremur hefur hún leiðbeint á þriðja tug doktorsnema.

Einstakur heiður

„Það er einstakur heiður að fá að leiða áframhaldandi þróun Heilbrigðisvísindasviðs við Háskóla Íslands næstu árin með öllu því frábæra samstarfsfólki sem þar er. Við höfum náð einstökum árangri í heilbrigðisvísindum og í menntun heilbrigðisstarfsfólks og ég sé mörg tækifæri til þess að gera enn betur með sameiginlegri uppbyggingu rannsóknarinnviða, miðlun vísinda til samfélagsins og framþróun í kennslu og þjálfun í virkri innlendri og alþjóðlegri samvinnu. Ég er full tilhlökkunar að takast á við þetta mikilvæga verkefni,“ er haft eftir Unni í tilkynningunni.

Heilbrigðisvísindasvið er eitt fimm fræðasviða Háskóla Íslands. Innan þess eru sex deildir: Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild, Lyfjafræðideild, Læknadeild, Matvæla- og næringarfræðideild, Sálfræðideild og Tannlæknadeild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert