Verið að svíkja gefin loforð

Framkvæmdir við brúa- og vegagerði í Hornafjarðarfljóti eru í fullum …
Framkvæmdir við brúa- og vegagerði í Hornafjarðarfljóti eru í fullum gangi. Ljósmynd/Sigurjón Andrésson

Stjórn Vestfjarðastofu segir óboðlegt að ekki verði farið í verkútboð á vegaframkvæmdum í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði á þessu ári, eins og til stóð samkvæmt samgönguáætlun.

Vísir greindi frá því á dögunum að nokkur stór verkútboð sem til stóðu á þessu ári hefðu verið sett á ís vegna þess að framkvæmdir við Hornafjarðarfljót, án nægilegra fjárheimilda, væru að soga til sín fjármagn sem nýta átti í önnur stór verkútboð.

„Það er ítrekað búið að lofa okkur því að þessum framkvæmdum verði haldið áfram og þeim verði lokið. Þær eru á samgönguáætlun, áttu að vera fjármagnaðar og klárast í síðasta lagi 2027,“ segir Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, í samtali við mbl.is um framkvæmdir á Vestfjörðum sem hafa ekki farið í verkútboð.

Verið að svíkja gefin loforð

Stjórn Vestfjarðastofu hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að verið sé að svíkja gefin loforð. Beinir stjórnin því til Alþingis, ríkisstjórnar og Vegagerðarinnar að vinna eftir gildandi samgönguáætlun og verkefni í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði verði boðin út strax í sumar.

Framkvæmdin við Hornarfjarðafljót átti fyrst að kosta 4,9 milljarða króna og átti kostnaðinum að vera skipt jafnt á milli ríkis og einkaaðila.

Eftir misheppnuð útboð var samt ákveðið að fara af stað í verkefnið, án nægilegra fjárheimilda og aðkomu einkaaðila, og nú er áætlaður kostnaður rokinn upp í 8,9 milljarða.

Samt eru aðeins fjárheimildir upp á 2.450 milljónir króna og samkvæmt stjórnarþingmönnum er því verið að flytja fjármuni úr öðrum verkum til að fjármagna framkvæmdirnar.

Vilja útboð í sumar

„Þetta er náttúrulega mjög sérstakt því þarna er verið að taka verkefni fram yfir verkefni sem eru á samgönguáætlun. Hornarfjarðafljótið er vissulega þörf framkvæmd og ég ætla ekkert að draga úr því - skiptir miklu máli eins og flestallar svo sem á Íslandi. En það er ekkert annað þéttbýlt svæði á Íslandi sem býr við samgöngur eins og sunnanverðir Vestfirðir,“ segir Sigríður.

Hún segir að hún hafi leyft sér að vera bjartsýn og trúði því í einlægni að ráðist yrði í framkvæmdirnar á Vestfjörðum. Hún hafi þó dálitlar áhyggjur núna.

„Við biðjum um að þessi framkvæmdum verði ekki seinkað og að það verði farið í útboð í sumar á þessum tveimur verkum,“ segir Sigríður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert