Banninu ekki flýtt: „Alltaf verið misskilningur“

Guðlaugur Þór áréttar að hann mun ekki flýta banni á …
Guðlaugur Þór áréttar að hann mun ekki flýta banni á nýskráningu dísil- og bensínbifreiða. mbl.is/Brynjólfur Löve

Ekki stendur til að banna nýskráningu dísil- og bensínbifreiða árið 2028.

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, í samtali við mbl.is.

Ríkisstjórnin kynnti nýverið uppfærða áætlun í loftlagsmálum með 150 aðgerðum. Frá árinu 2018 hefur staðið til að banna nýskráningu dísil- og bensínbifreiða árið 2030 og ein tillagan gengur út á það að skoða hvaða af­leiðing­ar það hefði að flýta bann­inu til árs­ins 2028.

„Það verður ekki gert“

Sumir hafa túlkað þessa tillögu sem svo að nýskráning fyrrnefndra bifreiða verði bönnuð árið 2028.

Verður bannað nýskráningu dísil- og bensínbifreiða árið 2028?

„Nei, þetta hefur alltaf verið misskilningur og það verður ekki gert,“ segir Guðlaugur.

Unnið með atvinnulífinu

Hann segir að tillögurnar hafi verið unnar öðruvísi en áður þar sem þær hafi verið unnar í samráði við atvinnulífið.

„Þetta eru raunsæjar niðurstöður út frá upplýsingum frá atvinnulífinu um hvað var raunhæft að gera á tilsettum tíma,“ segir hann.

Boð og bönn ekki lausnin

Guðlaugur hefur áður reynt að leiðrétta þennan misskilning á Alþingi en samt sem áður hafa sumir þingmenn áfram haldið því fram að um bann sé að ræða.

„Ég held að það sé ekki hægt að framkvæma þessa hluti með boðum og bönnum. Þetta snýr aðallega að samtakamætti í því að taka út norska olíu og setja íslenska endurnýjanlega orku í staðinn,“ segir hann og bendir á að slíkt hafi áður verið gert áður.

Nefnir hann sem dæmi þegar Íslendingar hættu kola- og gasnotkun og notuðu þess í stað rafmagn. Þá nefnir hann einnig hitaveituvæðinguna.

Hagsmunamál að vera sjálfstæð í orkumálum

Hann segir þróunin sé hröð og þar af leiðandi sé aðgerðaráætlunin lifandi plagg sem geti tekið breytingum. 

„En ég mun ekki leggja það til að flýta þessu banni. En aðalatriðið er þetta, að við eigum ekki að ræða þetta út frá boðum og bönnum. Þetta snýr að því hverjir eru okkar hagsmunir og það eru okkar hagsmunir að vera sjálfstæð þegar kemur að orkumálum.“

Hann segir það ekki aðeins vera loftlagsmál. Þetta sé efnahags- og þjóðaröryggismál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka