Kýldi barnsmóður sína sem kvartaði undan óþrifnaði

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Morgunblaðið/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi á dögunum karlmann í 5 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að slá barnsmóður og fyrrverandi eiginkonu sína með þeim afleiðingum að hún hlaut alvarlega áverka. Árásin átti sér stað þegar konan var að sækja dóttur þeirra úr forsjá ákærða. 

Í málsatvikalýsingu málsins kemur fram að konan hafi farið inn í íbúð ákærða og lýst yfir óánægju sinni með óþrifnað í íbúðinni, sem hafi að hennar sögn verið ógeðsleg. Við það hafi ákærði reiðst og fyrir vikið kýlt hana tvíveigis með krepptum hnefa í andlitið. 

Konan kvaðst hafa að verjast, en við seinna höggið féll hún aftur fyrir sig, niður steyptar tröppur, og vankaðist. Hún var færð undir læknishendur með sprungna vör, áverka á andliti og skurð á höfði. 

Ákærði hafnaði alfarið sök

Við málflutning í Héraðsdómi neitaði ákærði alfarið sök og kannaðist ekki við að átök hefðu brotist út milli hans og konunnar. Hann viðurkenndi þó að hafa komið að konunni í blóðpolli, en gat ekki skýrt hvernig það hefði gerst, öðruvísi en að konan hefði hrasað og dottið í stiganum. 

Hérðasdómur mat þó frásögn ákærða óáreiðanlega og ótrúverðuga þar sem misræmis gætti í vitnisburði hans frá fyrstu skýrslutöku. Önnur sönnunargögn þóttu einnig styðja framburð konunnar, en blóðblettir úr henni fundust á fötum mannsins og að mati réttarmeinafræðings var eina líklega skýringin talin vera að þeir hefðu komið við högg og átök. 

Dómurinn taldi því hafið yfir allan vafa að maðurinn hefði valdið áverkum konunnar. Fram kom í dóminum að sérstaklega væri litið til þess að að um brot gegn barnsmóður og fyrrverandi eiginkonu væri að ræða, sem þótti auka grófleika verknaðarins. 

Sem fyrr segir hlaut ákæðri fimm mánaða óskilorðsbundið fangelsi, en honum var einnig gert að greiða barnsmóður sinni 400.000 krónur í miskabætur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert