Búið er að framlengja gæsluvarðhald yfir karlmanni um þrítugt sem grunaður er um stórfellda líkamsárás í Kópavogi í síðustu viku.
Þetta staðfestir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, í samtali við mbl.is.
Maðurinn var upphaflega úrskurðaður í gæsluvarðhald fram til dagsins í gær en búið er að framlengja gæsluvarðhaldið til 25. júlí.
Er hinn grunaði sakaður um að hafa tekið upp hníf og beitt honum gegn tveimur mönnum.
Að sögn Elínar hlaut annar mannanna fjögur stungusár, þar af í hálsinn, og hinn tvo skurði á hendi.
Búið er að gera að sárum þess sem hlaut skurði á hendi. Maðurinn sem var stunginn á háls er ekki í lífshættu.
Ekki eru talin vera tengsl á milli þess grunaða og mannanna tveggja en Elín segir að rannsókn á málinu sé í fullum gangi.