Lyftingadómari leggst til Ermarsunds

Hópurinn bíður brottfarar í Dover. Síðast þegar heyrðist frá Ernu, …
Hópurinn bíður brottfarar í Dover. Síðast þegar heyrðist frá Ernu, um hádegisbil í dag, voru þær komnar inn í franska lögsögu. Ljósmynd/Aðsend

„Já, draumurinn var að synda á Ólympíuleikana en þeir byrja 4. ágúst svo ég þarf að skreppa aðeins heim á milli. Hitt hefði verið miklu skemmtilegri saga,“ segir Erna Héðinsdóttir, lyftingadómari og sjósundgarpur, og hlær dátt þar sem hún er stödd í Dover í Kent á Suðaustur-Englandi.

Erna hyggst þó ekki þreyja sundkeppni á Ólympíuleikunum í París í ágúst, öðru nær. Hún verður fyrst Íslendinga til að setjast í dómarasætið þegar keppt verður í ólympískum lyftingum á leikunum enda með umfangsmikla reynslu af þeim vettvangi eins og hún hefur rætt við mbl.is við fyrri tækifæri.

Þegar þetta viðtal birtist lesendum er Erna lögst til sunds við sjöundu sundkonu sem lögðu af stað í boðsund yfir til Frakklands á fimmta tímanum í nótt að breskum staðartíma. En hver var aðdragandinn að þessu sundævintýri sem lýtur ströngum reglum?

Forsprakkinn stórslasaðist

„Aðdragandinn er sá að ein í hópnum er nýorðin fimmtug, varð fimmtug núna 18. júní,“ svarar lyftingadómarinn. Hennar draumur var að synda yfir Ermarsundið á fimmtugsafmælinu sínu en hún lenti í hræðilegu bílslysi fyrir tuttugu árum og dó nánast, var í dauðadái í rúmlega fjörutíu daga og foreldrum hennar var sagt að hún næði sér aldrei en nú er hún að fara að synda yfir Ermarsundið.“

„Þú þarft að sækja um og útvega þér skipstjóra á …
„Þú þarft að sækja um og útvega þér skipstjóra á bát og svo færðu úthlutað ákveðnu „slotti“ sem kallast sundréttur. Okkar sundréttur byrjar 29. júní og stendur í viku og við getum þá lagt af stað einhvern tímann á því tímabili,“ segir Erna. Maður mætir sem sagt ekki bara að Ermarsundi og hendir sér út í. Ljósmynd/Aðsend

Umrædd boðsundkona í verkefninu sem hófst í nótt er Birna Björnsdóttir og segir Erna hópinn sem nú er á leið yfir sundið fræga hafa stækkað er nær dró. „Við tvær sem erum saman í herbergi [á hótelinu Bretlandsmegin] erum búnar að vera í sundhópnum hennar heima, svo eru þarna konur sem eru að vinna niðri í Nauthólsvík, þrjár af þessum konum eru búnar að vera á sjósundnámskeiði hjá mér og hópurinn verður svona til í kringum þessa hugmynd Birnu,“ útskýrir Erna.

Ljóstrar hún því jafnframt upp að með þeim í för verði áttunda konan, Sigrún Geirsdóttir, eina íslenska konan sem synt hefur ein síns liðs yfir Ermarsundið. „Hún heldur utan um okkur og er uppfull af fróðleik og reynslu svo það er mjög gott að hafa hana með okkur,“ segir Erna og greinir því næst frá formlegu hliðinni á því að synda yfir Ermarsundið en þar leyfist ekki bara að hoppa út í sjó og synda af stað.

Sundréttur – þó ekki matarkyns

„Þú þarft að sækja um og útvega þér skipstjóra á bát og svo færðu úthlutað ákveðnu „slotti“ sem kallast sundréttur. Okkar sundréttur byrjar 29. júní og stendur í viku og við getum þá lagt af stað einhvern tímann á því tímabili. Í hverri viku eru fjórir sundréttir gefnir út, sem er þá fyrir fjóra einstaklinga eða fjögur lið. Þeim sem er á fyrsta sundrétti er svo boðið að fara og annaðhvort fer hann eða fer ekki og svo fer næsti og svo framvegis. Sumir leggja aldrei af stað, hópar frá Íslandi hafa hætt við af því að ekki var veður til að synda,“ segir Erna frá.

Veðrið hefur hins vegar leikið við þær stöllur og lögðust þær því til sunds í nótt og syndir ein kvennanna í einu, enda um boðsund að ræða.

Auk skipstjóra og sundkvennanna er dómari um borð í fylgdarbátnum sem gætir þess að boðsundið fari fram samkvæmt settum reglum. „Þegar ein er búin að synda höfum við fimm mínútur til að skipta. Þá fer önnur út í og syndir fram úr henni og hin fer upp í bát. Þær mega aldrei snertast og sundmaður má aldrei snerta bátinn á meðan hann er að synda,“ heldur hún áfram en hver liðsmaður syndir alltaf í klukkustund.

Aðeins ein fer í land

Sundið er 32 kílómetrar og sem fyrr segir lagði hópurinn af stað á fimmta tímanum í nótt, klukkan 04:15. Þær dömur halda úti Facebook-síðunni Hafmeyjar yfir Ermarsund auk þess sem fylgjast má með sundinu gegnum svokallað Lifetrack-smáforrit þar sem hakað er við „sea satin“ til að sjá myndir af afrekinu.

Dömurnar klárar í slaginn. Þær eru meira en hálfnaðar þegar …
Dömurnar klárar í slaginn. Þær eru meira en hálfnaðar þegar þetta er skrifað. Ljósmynd/Aðsend

Reglufarganinu er þó ekki lokið, aðeins ein kvennanna fær að fara í land Frakklandsmegin. „Bara sú sem klárar fer í land og sú sem byrjar þarf að standa á þurru áður en hún syndir af stað,“ útskýrir Erna undir lokin.

„Þetta lítur bara rosalega vel út og sjórinn er orðinn heitari en við bjuggumst við, um sextán gráður, sem er bara heitur sjór fyrir okkur frá Íslandi. Við höfum ekki einu sinni áhyggjur af að okkur verði kalt,“ segir Erna Héðinsdóttir, lyftingadómari og sundvalkyrja, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert