Tekist á um ásetning Dagbjartar

23. september lést maðurinn í íbúð Dagbjartar í Bátavogi í …
23. september lést maðurinn í íbúð Dagbjartar í Bátavogi í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvort að það hefði verið ásetningur Dagbjartar Guðrúnar Rúnarsdóttur að verða vini sínum að bana kvöldið 23. september var á meðal þess sem sækjandi og verjandi í Bátavogsmálinu deildu um í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Aðalmeðferð í málinu lauk síðdegis með málflutningi Arnþrúðar Þórarinsdóttur, saksóknara hjá Héraðssaksóknara, og Arnari Kormáki Friðrikssyni, verjanda Dagbjartar.

Hún er ákærð fyrir brot á 211. grein almennra hegningarlaga þar sem segir: „Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.“

Í ákæru segir að Dagbjört hafi beitt manninn margþættu ofbeldi dagana 22. og 23. september sem leiddi til andláts hans.

Vissi að hún réðst á veikan mann

Arnþrúður vildi meina að Dagbjörtu hefði verið ljóst að hún beitti veikan mann áverkum sem ættu eftir að leiða til dauða hans. Hún lýsti árás Dagbjartar sem hrottalegri.

Dagbjört lýsti því sjálf fyrir dómi að maðurinn hefði verið slappur í einhvern tíma áður en hann lést. Hann var mikill drykkjusjúklingur og datt mikið. Arnþrúður sagði að Dagbjört hefði því vitað að hún réðst á mann sem var ekki við hestaheilsu og gat ekki varið sig.

„Ákærða vissi alveg hvern hún var að ráðast á,“ sagði Arnþrúður á einum tímapunkti.

Arnþrúður Þór­ar­ins­dótt­ir, sak­sókn­ari hjá héraðssak­sókn­ara, er til hægri á mynd­inni.
Arnþrúður Þór­ar­ins­dótt­ir, sak­sókn­ari hjá héraðssak­sókn­ara, er til hægri á mynd­inni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnþrúður sagði að í ljósi þess hve atlaga Dagbjartar að manninum var margþætt, flókin og stóð yfir í langan tíma hlaut henni að hafa verið ljóst að maðurinn myndi hljóta bana af.

Hún sagði það því hafið yfir allan skynsamlegan vafa að hún hafi svipt hann lífi og að Dagbjört hefði ætlað að bana honum, eða áttað sig a því að hann myndi deyja.

Gerði hluti sem morðingi gerir ekki

Arnar Kormákur sagði að áverkar á hinum látna bentu til að hún hefði mögulega viljað meiða hann, en að Dagbjört hefði reynt endurlífgun, hringt á Neyðarlínuna, heimilað réttarkrufningu og leyft lögreglu fúslega að skoða síma hennar. Það gerði einstaklingur sem ætlaði að bana manni af ásetningi ekki.

Hann sagði að Dagbjört hefði eytt gögnum úr síma sínum af því hún hafði eitthvað á samvisku sinni, en ekki manndráp.

Arnar Kormákur nefndi að hann hefði þekkt parið og að það mætti segja um samband þeirra að það hafi verið óheilbrigt. Þau létu ljót orð falla um hvort annað sem olli þeim báðum vanlíðan.

Ótrúverðugur framburður

Bæði Arnþrúður og Arnar Kormákur tóku fyrir framburð Dagbjartar, bæði í skýrslutökum lögreglu og fyrir dómi.

Dagbjört sagði fyrir dómi að hún hefði aldrei beitt hinn látna ofbeldi og bar oft á tíðum fyrir sig minnisleysi er hún var spurð út í aðdraganda andlátsins eða neitaði að svara spurningum Arnþrúðar og dómara.

Arnþrúður sagði að framburður hennar hefði verið mjög óskýr og tekið breytingum eftir því sem leið á rannsókn málsins og fyrir dómi. 

Framburður hennar væri því ótrúverðugur og ekki hægt að stóla á neitt sem hún sagði.

Skýr afstaða frá upphafi

Arnar Kormákur sagði að framburður Dagbjartar væri eins og hann væri, og að það væri ekkert til fyrirstöðu að byggja á honum að hluta.

Þá sagði hann að jafnvel þó framburður hennar væri ótrúverðugur væri það ekki merki um sekt.

Hann sagði að viðbrögð hennar við dauða mannsins væri heldur ekki merki um ásetning, en Dagbjört grét mikið yfir dauða hundsins síns sem drapst nokkrum dögum áður, en ekki mannsins svo að aðrir sáu til. 

Hann sagði að afstaða hennar um að hún hefði ekki banað manninum hefði verið skýr frá upphafi.

Dagbjört sagði bæði fyrir dómi og í skýrslutökum lögreglu að maðurinn datt mikið og vildi Arnar Kormákur meina að lögregla hefði lítið íhugað þann möguleika.

Dagbjört sagðist telja að lögregla hefði mótað snemma þá afstöðu að hún væri sek. Arnar Kormákur sagði að rannsóknargögn lögreglu sönnuðu ekki sekt hennar með fullnægjandi hætti.

Arn­ar Kor­mák­ur Friðriks­son, verj­andi Dag­bjart­ar, er til vinstri.
Arn­ar Kor­mák­ur Friðriks­son, verj­andi Dag­bjart­ar, er til vinstri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki sjálfsvörn

Arnþrúður sagði að það væri ekkert sem benti til þess að um sjálfsvörn Dagbjartar væri að ræða. Læknir sagði fyrir dómi að við skoðun eftir andlátið hefðu einungis fundist smávægilegt mar á framhandleggjum hennar. Því væri um einhliða árás að ræða.

Vitni sem þekktu parið sögðu fyrir dómi að þau hefðu aldrei séð eða vitað til þess að maðurinn beitti Dagbjörtu ofbeldi.

Arnar Kormákur sagði að sú staðreynd að hún væri ekki með mikla áverka sýndu fram á að hún hefði ekki veist að manninum með offorsi, líkt og sést oft í morðmálum.

Arnar Kormákur sagði að vafi væri um aldur áverka mannsins og að ýmsar mögulegar orsakir gætu hafa leitt til þeirra. Hann sagði það vera umhugsunarvert að enn væri verið að velta því upp hvernig áverkarnir urðu til.

Flókið dánarferli

Meðal annars sagði hann vafa vera um áverkann sem er talinn hafa leitt til köfnunar mannsins. Óljóst væri hvort að sá áverki gæti hafa leitt manninn hægt til dauða og að fall á klósett, líkt og Dagbjört greindi frá, gætu hafa verið orsök hans.

Arnar Kormákur sagði ljóst að flókið dánarferli hefði átt sér stað.

Hann vísaði meðal annars til dóms Hæstaréttar þar sem Annþór Kristján Karls­son­ og Börk­ur Birg­is­son voru sýknaðir af ákæru þar sem þeir voru sakaðir um að hafa orðið samfanga sínum að bana. Þótti ekki hægt að úti­loka að fall hefði orðið fanganum að bana.

Arnar Kormákur sagði að verknaðalýsing í ákæru væri óskýr, einkum varðandi hálstak sem Dagbjört á að hafa beitt manninn. 

Arnar Kormákur sagði því að of mikill vafi væri enn til staðar til þess að dæma Dagbjörtu fyrir morð.

Þá minntist hann á að margir aðrir þættir gætu hafa orðið manninum að bana sem ekki hefur verið hægt að útiloka með fullvissu, svo sem blóðsykursfall og bannvæn eitrunaráhrif amfetamíns, alkahóls og kódeins sem fannst í blóði mannsins.

Dæmd fyrir fíkniefnalagabrot og nytjastuld

Arnþrúður nefndi að algengast væri í álíka málum að menn væru dæmdir í allt að 16 ára fangelsi og sagði það rétt að horfa til þess í þessu máli. Gæsluvarðhald ætti að vera dregið frá en Dagbjört hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan í september.

Hún nefndi að Dagbjört hefði síðast verið dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í Landsrétti fyrir nytjastuld og fíkniefnalagabrot árið 2023 og skyldi dómurinn hafa það til hliðsjónar við ákvörðun refsingar.

Arnar Kormákur nefndi að Dagbjört hefði aldrei verið dæmd fyrir ofbeldisbrot og dóminum bæri að líta til þess.

Bæði Arnþrúður og Arnar Kormákur vísuðu máli sínu til stuðnings í dóm yfir Vali Lýðssyni sem var dæmdur í 14 ára fangelsi fyrir að bana bróður sínum í Árnessýslu árið 2018.

Arnar Kormákur sagði að í því tilfelli hefði verið ljóst að um blóði drifna árás væri að ræða.

Þá minntist Arnþrúður á dóm yfir Magnúsi Aroni Magnússyni en hún var sjálf sækjandi í því máli. Hún sagði það til fyrirmyndar í því máli að dómari sagði að Magnús skildi fá viðeigandi aðstoð. Arnþrúður sagði að teldu dómarar að Dagbjört þyrfti á sérstöku úrræði að halda væri það til góðs.

Þá krefjast tvö börn hins látna samtals 16 milljónir króna í miskabætur. Þau búa bæði erlendis en voru í góðu sambandi við föður sinn. Einnig er krafist greiðslu vegna útlagðs útfarakostnaðar, samtals tvær milljónir króna.

Einstaklega krefjandi mál

Arnar Kormákur sagði í máli sínu að Bátavogsmálið væri eitt mest krefjandi mál sem hann hefur tekið sér fyrir hendur, en hann hefur verið starfandi lögmaður í um 15 ár.

Áður en dómþingi var slitið sagði dómari að svo gæti farið að málsaðilum yrði sendur dómurinn rafrænt vegna sumarlokunar héraðsdóms sem hefst í lok júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert