„Það míglekur allt hérna í Dortmund“

Hjörvar Hafliðason, fótboltasérfræðingur, er staddur í Dortmund á leik Þjóðverja og Dana. Leikurinn var stöðvaður í um 15-20 mínútur vegna þrumuveðurs. Að sögn Hjörvars var það leikmaður Dana sem óskaði eftir því að leik yrði hætt.

„Rasmus Hojlund lét Michael Oliver vita,“ segir Hjörvar en Hojlund er framherji í liði Dana. 

Haglél  

„Þetta var rosalegt og kom á núll einni,“ segir Hjörvar um rigninguna sem kom í kjölfar þrumugnýjanna. Raunar breyttist rigningin í haglél á einum tímapunkti. 

Að sögn Hjörvars var fólk rólegt þó veðrið hafi minnt á sig.

„En það míglekur allt hérna í Dortmund. Öll samskeyti á þakinu á vellinum leka,“ segir Hjörvar.

Toni Kroos í baráttunni við Joachim Andersen og Alexander Bah …
Toni Kroos í baráttunni við Joachim Andersen og Alexander Bah í leiknum. AFP/Tobias Schwarz

Var tilbúinn í að eyða 20 evrum í viðbót 

Spurður segir Hjörvar hann og samferðamenn hans þó vera þurra. 

„Við erum ekki blautir. Maður var tilbúinn að eyða 20 evrum til viðbótar til að fá almennileg sæti,“ segir Hjörvar í gamansömum tón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert