Veðurstofan bíður nú átekta

Líklegt þykir að nýtt eldgos hefjist á næstu vikum.
Líklegt þykir að nýtt eldgos hefjist á næstu vikum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landris í Svartsengi heldur áfram á svipuðum hraða og undanfarna daga sem þykir benda til þess að nýtt kvikuhlaup eða eldgos sé líklegt á næstu vikum.

Þetta segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Breytinga í landrisi varð fyrst vart í byrjun vikunnar, en gögnum sem safnað verður á næstu dögum og vikum munu nýtast við að skýra betur breytingar og þróun innan kvikukerfisins.

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt hraunbreiðunnar sem hefur myndast …
Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt hraunbreiðunnar sem hefur myndast í eldgosinu sem hófst 29. maí. Kort/Veðurstofa Íslands

Stutt síðan breytinganna varð vart

Sigríður Magnea segir frekar stutt síðan Veðurstofan tók eftir breytingum, nú sé beðið eftir frekari gögnum. 

„Það er lítið við að bæta annað en að landrisið heldur áfram og skjálftavirknin er lítil. Ef þetta ætlar að hegða sér svipað og síðustu gos má gera ráð fyrir að nokkrar vikur séu í að eitthvað fari að gerast. Það er hinsvegar frekar stutt síðan við námum breytingar, þannig til þess að hún sé markverð þurfum við að bíða aðeins lengur til að geta sagt til um hvort breytingin sé markverð,“ segir Sigríður Magnea. 

Miðað við hegðun fyrri eldgosa geti þó talist líklegt að nýtt kvikuhlaup eða eldgos sé væntanlegt á næstu vikum, en skjálftavirknin við Svartsengi og Sundhnúk hefur verið mjög lítil og fáir smáskjálftar mælst undanfarna daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert