Guðrún um könnun Maskínu: „Þetta er agalegt“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra kveðst vera á fleygiferð í útlendingamálum.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra kveðst vera á fleygiferð í útlendingamálum. mbl.is/Óttar

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, telur nýjustu skoðanakönnun vera agalega fyrir Sjálfstæðisflokkinn og segir flokkinn hafa verið hræddan við að tala fyrir hægristefnu.

Þetta kom fram í hlaðvarpinu Ein Pæling, sem Þórarinn Hjartarson stýrir.

„Hvað heldurðu að sé að í Sjálfstæðisflokknum?“ spurði Þórarinn. 

„Ég held að það sem er kannski fyrst og síðast að er að við höfum verið hrædd við að tala fyrir okkar gildum. Við höfum verið hrædd við að tala fyrir hægristefnu og því þarf að breyta,“ sagði Guðrún.

Stefna sem höfði til landsmanna

Hún sagði sjálfstæðisbaráttuna vera ríka í Íslendingum og nefndi að sjálfseignarstefnan væri eitthvað sem höfðaði til allra Íslendinga, að allir geti eignast húsnæði.

„Allir Íslendingar eiga sér draum - ég vil trúa því - að stofna sitt fyrirtæki og vera sjálfs síns herra. Mér finnst skorta það á síðustu árum að við höfum svolítið gefið eftir í þeirri umræðu og það kannski gerist í ríkisstjórn þar sem er svona meiri vinstrislagsíða. Vegna þess að það sem hefur líka gerst er að Framsóknarflokkurinn hefur hallað sér til vinstri, að mínu mati,“ sagði hún.

Guðrún sagði að hið opinbera hefði blásið út að undanförnu og að það væri öllum að kenna.

„En við þurfum að horfa inn á við í Sjálfstæðisflokknum, tala fyrir sterkri hægrisveiflu,“ sagði hún en bætti við að hún teldi flokkinn hafa staðið sig vel á þingvetrinum og klárað mikilvæg mál.

Á fleygiferð í útlendingamálum

Sendi hún svo pillu á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, og færði umræðuefnið yfir í útlendingamálin.

„Ég ætla að minna á það að þegar að þessi útlendingalög voru sett árið 2016 þá var nú Sigmundur Davíð forsætisráðherra,“ sagði hún bætt við:

„Ég sagði það þegar ég tók við embætti dómsmálaráðherra að ég ætlaði að ná böndum á þennan málaflokk, sem útlendingamálin eru, og ég er á fleygiferð í þeirri vegferð. Þú spurðir mig líka hvort að það væri gert nóg, ég held að það þurfi að gera meira og þess vegna er ég að koma með annað frumvarp,“ sagði hún meðal annars.

Fylgið mikið áhyggjuefni

Guðrún var spurð um fylgi flokksins í nýjustu könnun Maskínu, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 14,7% fylgi. Hún kvaðst ekki skilja þetta gífurlega lága fylgi og sagði að flokkurinn væri með frábæra stefnu sem eigi að höfða til landsmanna.

„Þetta er agalegt. Vegna þess að við erum með svo frábæra stefnu sem mér finnst einhvern veginn eig að höfða til svo mikils massa en er ekki að gera það. Og það er mikið áhyggjuefni, umhugsunarefni fyrir okkur sem erum að starfa í flokknum og erum í framlínu flokksins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert