Hvernig getur skuldabréf verið kynjað?

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sett á sig …
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sett á sig kynjagleraugun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkissjóður gaf á dögunum út kynjað skuldabréf og er Ísland er fyrsta landið sem gefur út skuldabréf af þessu tagi. Fjármálaráðherra telur líklegt að fleiri lönd muni fylgja fordæmi Íslendinga.

En margir klóra sér eflaust í hausnum og spyrja sig: Hvað gerir þetta skuldabréf svona kynjað? Er það stelpa, strákur eða stálp?

Ekki beint. Það verður alla vegana ekki blásið til kynjaveislu bréfsins vegna.

Í raun eins og græn skuldabréf

Andvirði kynjaða skuldabréfsins er nýtt í verkefni sem tengjast aðgerðum sem stuðla að kynjajafnrétti, rétt eins og græn skuldabréf eru notuð til að fjármagna verkefni sem snúa að umhverfis- og loftslagsmálum. 

„Aðilinn sem kaupir þetta bréf leggur áherslu á að þeir fjármunir sem þarna skapast séu notaðir við jafnréttismál og félagslegt jafnrétti,“ útskýrir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is. 

Skuldabréfið fellur undir sjálfbæra fjármögnun ríkissjóðs en kynjaða skuldabréfið ber 3,4% fasta vexti. Bréfið var gefið út til 3 ára í einkaútgáfu til Franklin Templeton, eins stærsta sjóðstýringarfyrirtækis í heimi. Umsjón með útgáfunni var í höndum BNP Paribas.

Samstarf við UN Women

Andvirði útgáfunnar, um 7,5 milljarðar króna, verður því nýtt í til að mæta kostnaði ríkissjóðs vegna jafnréttisverkefna.

„Við fórum í samstarf við UN Women og fengum ráðgjöf frá þeim,“ segir Sigurður Ingi enn fremur. Réttindasamtökin hafi einnig aðstoðað við að útfæra þau skilyrði sem skuldabréfið lýtur.

Á vef fjármálaráðuneytisins kemur fram að fénu verði fyrst og fremst ráðstafað í verkefni sem eigi að „tryggja konum og kvárum í viðkvæmri stöðu félagslega þjónustu og viðunandi lífsskilyrði“ og „draga úr byrði kvenna af ólaunuðum heimilis- og umönnunarstörfum“.

Fyrst þjóða

„Þetta hefur auðvitað vakið gríðarlega eftirtekt erlendis þar sem við erum fyrsta þjóðin í heiminum [sem gefur út kynjað skuldabréf],“ segir Sigurður Ingi.

Hann tekur enn fremur fram að innan 1% af fjármögnun heimsins tengist fimm heimsmarkmiðunum Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti, sem séu nánast alfarið fjármögnuð „í gegnum svona hluti“.

„Þarna erum við að sýna frumkvæði og það munu örugglega aðrar þjóðir fylgja í kjölfarið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert