Lokunin geti raskað ró nemenda

Þjóðarbókhlaðan verður lokuð frá 22. júlí til 5. ágúst.
Þjóðarbókhlaðan verður lokuð frá 22. júlí til 5. ágúst. Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson

Þjóðarbókahlaðan í Reykjavík verður lokuð frá 22. júlí til 5. ágúst. Formaður Stúdentaráðs segir lokunina bitna á nemendum og öðrum sem nýti aðstöðuna á sumrin. 

„Á sama tíma þá er ekki sambætileg lesaðstaða í HÍ og þar er ekki hægt að bóka t.d. hópavinnuherbergi,“ segir Arent Orri Claessen, formaður Stúdentaráðs, inntur eftir viðbrögðum við lokuninni í samtali við mbl.is.

Hann segir lokunina sérstaklega hafa áhrif á þá sem stunda nám og rannsóknir á sumrin, en einnig einstaklinga sem vinna við skriffinnsku og ritlistir. Ekki búi allir við aðstæður sem bjóða upp á ró og næði til lesturs og skrifa.

Aðspurður kveðst hann ekki vita til þess að Stúdentaráð hafi borist margar kvartanir yfir ráðhagnum en að vissulega hafi einhverjir lýst yfir óánægju.

Sáralítil eða engin notkun á sumrin

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður segir sumarlokunina einfaldlega gerða af sparnaðarráðstöfunum. Hún staðfestir að safnið hafi ekki áður lokað yfir sumartímann en að á það verði reynt í þessar tvær vikur í sumar. 

„Þegar harðnar í ári þá er þetta bara eitt af því sem fólk grípur til.“

Hún segir safnið fara að fordæmi annarra safna en til að mynda loki Þjóðskjalasafnið líka um eitthvert skeið á sumrin. Aðsóknin á safnið sé almennt afar lítil á þessum tíma árs og að flest efni sé í dag aðgengilegt á netinu.

„Það er bara sáralítil eða engin notkun.“

Aðspurð segir hún engar kvartanir hafa borist þrátt fyrir að sumarlokunin hafi verið auglýst í nokkrar vikur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert