Maður á sjötugsaldri sem er grunaður um að hafa orðið fimmtugri sambýliskonu sinni að bana í fjölbýlishúsi á Akureyri í apríl hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 15. júlí.
Konan fannst látin í íbúðinni þann 22. apríl og var sambýlismaður hennar hnepptur í gæsluvarðhald sem átti að renna út í dag. Héraðsdómur Norðurlands eystra úrskurðaði í dag um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum til 15. júlí en hann er sá eini sem hefur réttarstöðu sakbornings.
Þetta staðfestir Rut Herner Konráðsdóttir, lögreglufulltrúi á Akureyri, við mbl.is en málið er komið til afgreiðslu hjá héraðssaksóknara.
Þegar núverandi varðhaldi lýkur hefur maðurinn setið í varðhaldi í 12 vikur, en það er sá tímarammi sem ákæruvaldið hefur alla jafna til að halda sakborningi í varðhaldi áður en ákæra er gefin út, að því gefnu að dómstóll samþykki gæsluvarðhaldskröfuna.