Tilkynnt var um skemmdarverk á gamla klaustrinu í Garðabæ um tíuleytið í gærkvöldi. Brotnar höfðu verið fjöldamargar rúður en engu stolið.
Skúli Jónsson, stöðvarstjóri á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, segir í samtali við mbl.is að ekki sé vitað hverjir voru þar að verki.
„Það var þarna tilkynnandi sem sagðist hafa séð til ungmenna vera þvælast þarna kvöldin á undan og þarna líka [gærkvöldi], en við erum ekki með nein nöfn eða neitt sko,“ segir Skúli.
Hann segist ekki kannast við skemmdarverk af þessu tagi í Hafnarfirði eða Garðabæ og kannast ekki heldur við grunsamlegar hópamyndanir ungmenna.
Klaustrið var áður í eigu Sankti Jósefssystra en var keypt af Garðabæ árið 2014. Í kaupsamningi sem gildir til ársins 2028 var kvöð um að nota húsnæðið fyrir aldraða eða aðra mannúðarstarfsemi.
Húsnæðið hefur lítið verið notað og þurfti töluverðar endurbætur og viðhald samkvæmt ástandsmati.
Í vor óskaði Garðabær eftir upplýsingum frá hæfum aðilum með áhuga á að kaupa eða leigja, endurbæta, viðhalda og reka klaustrið sem stendur við Holtsbúð 87.