Taktísk kosning komi í veg fyrir sigur Le Pen

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur segir sigur Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi vera …
Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur segir sigur Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi vera ólíklegan. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon/AFP

Fyrri umferð frönsku þingkosninganna fór fram í gær og bar Þjóðfylking Marine Le Pen sigur úr býtum.

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur segir sigur Þjóðfylkingarinnar ólíklegan í seinni umferð kosninganna, sem fer fram 7. júlí. Kosningakerfi Frakka bjóði þó upp á minnihlutakosningu. 

„Þetta er náttúrulega mikill sigur hjá Þjóðfylkingunni og meira heldur en að þeir hafa fengið áður, en það þarf samt að hafa í huga að þeir fá ekki nema þriðjung atkvæðanna,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Hann segir að vegna kosningakerfisins í Frakklandi sé reyndar hugsanlegt að í seinni umferðinni geti Þjóðfylkingin fengið hreinan meirihluta út á mikinn minnihluta atkvæða.

Heldur ólíklegra sé talið að þeir fái hreinan meirihluta heldur en að þeir fái hann ekki.

„Miðjumenn og vinstrimenn eru að rotta sig saman um að vera með taktíska kosningu til þess að koma í veg fyrir að Þjóðfylkingin fái hreinan meirihluta út á minnihluta atkvæða.“

Miklir óvissutímar framundan

Ólafur segir að þannig verði líklegt á næsta þingi að enginn hafi meirihluta, en nefnir tvær sviðsmyndir. 

„Annars vegar ef Þjóðfylkingin fær meirihluta, þá kemur ástand sem að hefur nú verið nokkrum sinnum áður sem að kallað er á ensku cohabitation, þar sem forsetinn og ríkisstjórn eru úr sitthvorum flokknum.

Hingað til hefur það gengið bara þokkalega en hins vegar myndi það verða miklu erfiðara með flokk svona langt til hægri út á jaðrinum eins og Þjóðfylkingin.

Nú, ef enginn fær meirihluta er staðan líka mjög flókin, og það eina sem við getum verið viss um er að það eru mjög miklir óvissutímar framundan í frönskum stjórnmálum,“ segir Ólafur. 

Enginn virðist hafa grætt á aukinni kjörsókn

Spurður út í kjörsókn Frakka í fyrri umferð, sem var hærri en vanalega, eða 67,5%, segir Ólafur að enginn virðist hafa grætt á aukinni kjörsókn. Að minnsta kosti ekki í fljótu bragði. 

„Þetta voru náttúrulega mjög spennandi kosningar og það er lang líklegast að það sé meginskýringin á því að kjörsóknin er mun meiri heldur en hún hefur verið undanfarið,“ segir Ólafur.

„Hinsvegar virðist nú skoðanakannanir í grófum dráttum hafa staðist þó að það hafi orðið meiri kjörsókn sem bendir nú til þess svona fljótt á litið að enginn sérstakur hafi grætt á þessari auknu kjörsókn, hvorki Þjóðfylkingin, né Vinstrimenn, né Miðjubandalagið.“ 

Þrifu af sér skítinn

Þá sé líklegasta útkoman sú að Þjóðfylkingunni takist ekki að tryggja sér meirihluta. 

„Ég held að það sé líklegast að Þjóðfylkingin fái ekki hreinan meirihluta, það er að segja að það munu nógu margir kjósa taktískt, miðjumenn að kjósa vinstrimenn eða vinstrimenn að kjósa miðjumenn, til þess að koma í veg fyrir að þeir fái hreinan meirihluta,“ segir Ólafur.

Segir hann að slíkt hafi gerst í Frakklandi árið 2002, þegar Jean Le Pen var í framboði gegn Chirac.

„Þá komust þeir tveir í síðari umferðina í forsetakosningunum. Þá flykktust vinstrimennirnir á kjörstað til þess að kjósa Chriac til að forða því að Le Pen næði kjöri.

Menn sögðu að þeir hefðu verið með sturtuklefa fyrir utan kjörklefana þannig að þeir gætu þvegið af sér skítinn, vinstrimennirnir, þegar þeir voru búnir að kjósa taktískt. Það er líklegast að taktísk kosning komi í veg fyrir þetta,“ segir Ólafur. 

Óvenju mörg þriggja manna kjördæmi

Hann nefnir að möguleikarnir sem séu uppi á borðinu sýni fram á galla einmenningskosningakerfisins og umferðanna tveggja. 

„Það virkar þannig að það eru tvær umferðir. Það eru einmenningskjördæmi og til þess að vera kosinn í fyrri umferðinni þá þarf frambjóðandinn bæði að fá 50% gildra atkvæða í kjördæminu, það er að segja meira en helming.

En verður líka að fá 12,5% þeirra sem að eru skráðir á kjörskrá. Þannig að ef kjörsóknin er lítil getur það ekki dugað að vera með 50% og það er mikill minnihluti þingsætanna þar sem það fást þá úrslit í fyrri umferðinni.

Þá kemur til önnur umferðin og í annarri umferðinni eru alltaf þeir tveir sem voru efstir í fyrri umferðinni en til viðbótar þá geta þeir sem að fá 12,5% af þeim sem eru skráðir á kjörskrá líka verið í framboði.

En það þýðir að, af því að þetta er miðað við þá sem eru skráðir á kjörskrá, að það fer eftir kjörsókninni hvað þú þarft að hafa mikið fylgi og það getur verið töluvert meira,“ segir Ólafur.

Nefnir hann að í undanförnum kosningum verið tiltölulega fá kjördæmi þar sem það hafa verið fleiri en tveir í seinni umferðinni.

„Núna er hinsvegar búist við því að það séu mjög mörg sæti, ég held ég hafi séð yfir 200 sæti, þar sem það geta verið þrír. Og ef það eru þrír í framboði þá geta kannski atkvæðin dreifst þannig að flokkur sem er með 30, 40 prósent atkvæða getur fengið sætið,“ segir Ólafur. 

Kjósendum verði að vera verr við Þjóðfylkinguna

Þessi staða sé ástæðan fyrir því að nú séu menn á vinstri vængnum og í miðjunni að semja um taktíska kosningu. 

„Í þessum sætum, þar sem að eru þrír sem eiga rétt á því að vera í framboði í seinni umferðinni, það myndi þá vera yfirleitt einn frá Þjóðfylkingunni, einn frá Vinstra bandalaginu og einn frá Miðjubandalaginu, að þá dragi annaðhvort miðjumaðurinn eða vinstrimaðurinn sig til baka þannig það verði bara tveir í hverju kjördæmi.

Síðan er reiknað þá með því að ef að vinstrimaðurinn dregur sig í hlé, þannig að það er bara miðjumaður og Þjóðfylkingin sem er í framboði, að þá muni vinstrimennirnir kjósa miðjumanninn til að koma í veg fyrir að Þjóðfylkingamaðurinn verði kosinn.

En þeir þurfa náttúrulega í fyrsta lagi að draga sig til baka og vinstrimennirnir hafa sagt að þeir ætli að gera það, það er ekki alveg eins klárt með alla miðjumennina, en það virðist nú samt að í flestum kjördæmum verði bara tveir í framboði.

En þá náttúrlega þurfa kjósendurnir líka að vera tilbúnir til þess að kjósa taktískt, sem sé að miðjumanninum verður að vera ver við Þjóðfylkinguna heldur en Vinstribandalagið til þess að kjósa Vinstribandalagið. En það er lang líklegast að þetta gangi eftir í þeim mæli að Þjóðfylkingin fái ekki hreinan meirihluta en það er samt möguleiki á því,“ segir Ólafur. 

Þetta sé þó allt háð því að taktíska kosningin gangi upp. Sigur Þjóðfylkingarinnar sé enn möguleiki. 

„Það er ekkert sem getur haggað honum“

Hvað varðar stöðu Macron segir Ólafur ákvörðun hans um að leysa upp þing og boða til kosninga fremur óskiljanlega. 

„Ég sé ekki að það skilji neinn af hverju hann fór í þetta, af hverju hann tók þessa áhættu. Ég hef ekki séð neina skynsamlega skýringu á því og hans staða er náttúrulega mjög veik eftir þetta.

Hann náttúrulega situr í sínu forsetaembætti til loka kjörtímabilsins, það er ekkert sem getur haggað honum í því.

En hinsvegar þá getur hann ekki, ef það verður til dæmis stjórnarkreppa eða eitthvað þess háttar, þá getur hann ekki boðað aftur til þingkosninga fyrr en eftir ár, það eru reglurnar í Frakklandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert