„Þetta eru óupplýst mál“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur enn ekki haft hendur í hári …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur enn ekki haft hendur í hári mannsins eða mannanna sem ógnuðu börnum við nokkra skóla í Hafnarfirði í vor. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur enn ekki haft hendur í hári mannsins eða mannanna sem ógnuðu börnum við nokkra skóla í Hafnarfirði í maí.

Fjögur atvik komu upp þar sem maður annaðhvort ógnaði börnum eða réðist að þeim og í kjölfarið tóku foreldrar sig til og hófu svokallað foreldrarölt auk þess sem lögreglan herti eftirlit með skólum bæjarins.

„Þetta eru óupplýst mál en það hafa engin fleiri tilvik af þessu tagi komið inn á borð okkar síðan í maí. Við erum búnir að vinna með allt sem við teljum okkur geta gert og það er engin rannsókn í gangi nema við fáum einhverjar frekari vísbendingar til að vinna með,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Hann segir að engar frekari vísbendingar hafi borist um þessi mál síðan í lok maí en umrædd atvik áttu sér stað fyrri hluta maímánaðar, tvö við Víðistaðaskóla, eitt við Engidalsskóla og eitt nærri Lækjarskóla.

Einn maður var handtekinn í byrjun júní en var látinn laus eftir yfirheyrslu. Sá aðili veittist að börnum við verslunarmiðstöðina Fjörð en í tilkynningu frá lögreglunni kom fram að maðurinn hafi ekki tengst áðurnefndum atvikum við skólana í Hafnarfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert