Voru í framkvæmdum þegar blæðingin hófst

Vegagerðin.
Vegagerðin. mbl.is/sisi

Framkvæmdir Vegagerðarinnar á Fagradal í gær voru upprunalega ekki vegna lagfæringa á bikblæðingu. Verið var að endurnýja bundið slitlag á veginum þegar blæðing hófst.  

„Það var verið að yfirleggja klæðninguna - þetta bundna slitlag sem við erum meira og minna með á vegakerfinu út á landi. Það var bara viðhaldsverkefni að leggja mölina,” segir Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni, í samtali við mbl.is. 

Nefnir Sveinn að hlýtt hafi verið í veðri á Austurlandi í gær og bikblæðing hafi byrjað er verið var að endurnýja bundið slitlag vegarins. Hafi því starfsmenn einnig þurft að byrja að sanda ofan í bikblæðinguna.

Héldu að um nýja aðferð væri að ræða

Greint var frá fyrr í dag að bæjarráð Fjarðabyggðar hefði beðið með að senda inn kvörtun á borð Vegagerðarinnar vegna bikblæðingunnar. Voru ástæðurnar fyrir því að Vegagerðin hefði þegar verið mætt í gær í lagfæringar og taldi bæjarráðið þá að verið væri að yfirleggja veginn með möl í stað þess að takast á við blæðinguna með sandi.

Nefndi Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, að verulega hefði komið á óvart hve fljótlega Vegagerðin hefði brugðist við blæðingunni og að bæjarráðið myndi bíða eftir frekari upplýsingum um gang mála.  

Sandurinn aðal verkfærið

Ákvörðun Vegagerðarinnar um að nota sand á bikblæðingu hefur verið gagnrýnd en fyrr í dag nefndi Hlífar Þorsteinsson, rekstraraðili rútufyrirtækisins Austfjarðaleið, að sandur á blikblæðingu geti haft það í för með sér að vegir verði mjög hálir og reynst ökumönnum mótorhjóla stórhættulegir.  

Aðspurður segir Sveinn að aðalframkvæmdir Vegagerðarinnar gagnvart blæðingunni á Fagradal verði þó að sanda.  

„Já það er þannig að sett er hreinan sand í þetta.” 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert