Breska fyrirtækið InstaVolt áætlar að koma upp sextán nýjum hraðhleðslustöðvum í Fjarðabyggð. Jóna Árný Þórðardóttir, sveitarstjóri Fjarðabyggðar, og Mark Stannard, fulltrúi InstaVolt, hafa undirritað samning þess efnis.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjarðabyggð.
Í tilkynningunni kemur fram að samningurinn sé til 25 ára og að InstaVolt áformi að setja upp sextán 160 kwh hraðhleðslustöðvar í Fjarðabyggð. Hleðslustöðvarnar verði staðsettar á Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Breiðdalsvík.
„Þetta er mikil lyftistöng fyrir okkur í þjónustu við rafbílaeigendur og ferðamenn. Með þessum samningi erum við að gera rafbílanotendum kleift að ferðast um Fjarðabyggð og verja tíma sínum í öllum byggðakjörnum auk þess sem þetta er mikilvægur áfangi í orkuskiptunum,“ er haft eftir Ragnari Sigurðssyni, formanni bæjarráðs í Fjarðabyggð, í tilkynningunni.
Þá er haft eftir Mark Stannard, sem starfar hjá InstaVolt, að fyrirtækið vinni að því að koma upp öflugu hraðhleðsluneti um allt Ísland.
„Við hjá InstaVolt erum að vinna í því að koma upp öflugu hraðhleðsluneti um allt Ísland og samstarf okkar við Fjarðabyggð er stór hluti af þeirri vegferð. Við erum spennt að setja upp stöðvar á sex lykilstöðum og hlökkum til samstarfsins. Við höfum trú á framtíð rafbílanna og það er frábært að sjá að Fjarðabyggð gerir það líka,“ er haft eftir Mark Stannard.
Enn fremur segir í tilkynningunni að með opnun hraðhleðslustöðvanna í Fjarðabyggð séu hraðhleðslustöðvar InstaVolt á Íslandi orðnar 48 talsins. Þá áætli fyrirtækið að opna 300 hraðhleðslustöðvar á Íslandi á næstu tveimur árum.
„InstaVolt leggur áherslu á auðvelt aðgengi að stöðvunum þar sem greitt er fyrir hleðsluna með greiðslukorti eða síma. Ekki þarf að nota sérstaka greiðslulykla eða app.“