Alvarleg staða en ráðherra segist jákvæður

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýr Þjóðarpúls Gallup kom út í gær. Vinstri græn mælast með 4% fylgi og næðu ekki manni inn á þing yrði nú gengið til kosninga. Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra segir stöðu VG alvarlega en horfir á þróunina með jákvæðum augum. 

„Í mínum huga er staðan auðvitað mjög alvarleg þegar við erum að mælast með 4% fylgi,  en hins vegar þá hefur hún batnað umtalsvert frá því í síðustu skoðanakönnun Gallup, þar sem hún var 3,3%. Þannig ég vil nú bara horfa á þetta með mjög jákvæðum augum, að þetta sé upp á við – sjáum þetta vonandi áfram.“

Sýnir að flokkurinn nái árangri

„Ég bind auðvitað vonir við að mörg af þeim málum sem við vorum að klára núna í vor eins og endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu, sem mun stórbæta kjör örorkulífeyrisþega og auka tækifæri þeirra til þess að vera á vinnumarkaði – draga úr skerðingum, muni skipta máli. Ég vil nú líka fá að nefna líka samþykkt nýrrar óháðrar Mannréttindastofnunar sem er stórt mannréttindamál,“ segir Guðmundur. 

Þú telur að þetta muni skipta máli er varðar fylgi?

„Ég held þetta sýni að við erum að ná árangri í ríkisstjórninni og þarna mætti nefna líka stór mál sem tengjast kjarasamningunum, sem eru auðvitað mál sem við höfum lagt ríka áherslu á. Ókeypis skólamáltíðir í grunnskóla, hækkun fæðingarorlofsins, húsaleigubætur hækka, réttarstaða leigjenda bætt og svo framvegis. Margt af þessu snýr auðvitað að því að styðja við, sérstaklega lágtekjuhópa í samfélaginu, sem er auðvitað vinstra mál og eitt af því sem við höfum lagt áherslu á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert