Andlát: Jes Einar Þorsteinsson

Jes Einar Þorsteinsson arkitekt lést aðfaranótt sunnudagsins 30. júní.
Jes Einar Þorsteinsson arkitekt lést aðfaranótt sunnudagsins 30. júní. Ljósmynd/Aðsend

Jes Einar Þorsteinsson arkitekt lést aðfaranótt sunnudagsins 30. júní á Landspítalanum eftir stutt veikindi, 89 ára að aldri.

Jes Einar fæddist í Vestmannaeyjum 5. september 1934. Hann var elstur tíu barna Ásdísar Jesdóttur og Þorsteins Einarssonar, síðar íþróttafulltrúa ríkisins.

Jes Einar útskrifaðist sem stúdent frá MR 1954, nam málaralist í París frá 1954 til 1956, m.a. á Académie de la Grande Chaumière, en útskrifaðist úr arkitektúr frá École Nationale Supérieure des Beaux-Arts í París 1967. Eftir heimkomuna til Íslands það ár rak hann arkitektastofu í eigin nafni.

Fjöldi þekktra bygginga

Jes Einar var mikilvirkur arkitekt. Eftir hann liggur fjöldi þekktra bygginga, sérstaklega heilbrigðis- og íþróttamannvirki. Má þar helst nefna Sjúkrahúsið á Ísafirði, viðbyggingu við Sjúkrahúsið í Stykkishólmi, Heilsugæslu og Tónlistarskóla á Seltjarnarnesi ásamt fjölda annarra heilsugæsla víða um land.

Eftir hann liggur sömuleiðis fjöldi íþróttamannvirkja, ekki síst sundlaugar m.a. í Bolungarvík, Borgarnesi, Flateyri og Skeiðalaug auk viðbyggingar við Laugardalslaug og Vesturbæjarlaug. Þessu til viðbótar teiknaði hann íbúðir fyrir aldraða í Vík í Mýrdal og einbýlishús auk verðlaunaðra tillagna í samkeppnum.

Kjörinn heiðursfélagi

Samhliða stofurekstri sinnti Jes Einar ábyrgðarstörfum fyrir arkitekta, var í stjórn Arkitektafélags Íslands í samtals sex ár og þar af formaður 1984-’86. Hann sat í stjórn Bandalags íslenskra listamanna og í stjórn Listskreytingasjóðs fyrir arkitekta á sama tíma.

Jes Einar var formaður stjórnar ÍSARK-Íslenska arkitektaskólans á meðan hann starfaði og var kjörinn heiðursfélagi í Arkitektafélagi Íslands 2013.

Árin 1963 og 1964 hélt hann tvær myndlistarsýningar í Ásmundarsal og eru verk eftir hann í eigu Listasafns Íslands og fleiri safna. Hönnunarsafn Íslands tók við teikningasafni hans til varðveislu á síðasta ári.

Eftirlifandi eiginkona Jes Einars er Ragnhildur Jónína Sigurðardóttir, Ranka. Þau eignuðust þrjú börn og tvö þeirra lifa hann, Sigurður Halldór og Ásdís Sigurrós, ásamt fimm barnabörnum og einu langafabarni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert