„Þetta er vissulega eins og öll önnur verkefni á Íslandi í dag umtalsvert dýrara heldur en þegar menn lögðu af stað. Samgönguvísitala hefur hækkað held ég um 30% á stuttum tíma þannig það er alveg eðlilegt að það hafi kostað meira. En framkvæmdirnar ganga vel og þetta er stórkostleg framkvæmd,” segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um framkvæmdir við Hornafjarðarfljót.
Greint hefur verið frá því að kostnaður Vegagerðarinnar vegna framkvæmdanna við Hornafjarðarfljót hafi farið fram úr gildandi fjárheimildum Alþingis svo milljörðum skiptir.
Framkvæmdin við Hornafjarðarfljót átti fyrst að kosta 4,9 milljarða króna og átti kostnaðinum að vera skipt jafnt á milli ríkis og einkaaðila. Þrátt fyrir misheppnuð útboð var ákveðið að fara af stað með verkefnið, án nægjanlegra fjárheimilda og aðkomu einkaaðila, og er nú kostnaður kominn upp í 8,9 milljarða.
Greint var frá því á dögunum að önnur stór verkútboð sem stóðu til á árinu hefðu verið sett á ís vegna framkvæmdanna við Hornafjarðarfljót. Var talið að framkvæmdirnar væru að soga til sín fjármagn sem átti að nýta í önnur verkútboð. Sagði þá í tilkynningu frá stjórn Vestfjarðastofu að verið væri að svíkja gefin loforð og að óboðlegt væri að ekki yrði farið í verkútboð á vegaframkvæmdum í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði á þessu ári.
„Þau eru öll í gangi þau verkefni sem voru farin af stað,” segir Sigurður Ingi er hann er spurður hvort framkvæmdirnar við Hornafjarðarfljót séu í forgangi fram yfir aðrar vegaframkvæmdir.
Verður farið í framkvæmdir í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði?
„Já það eru til dæmis verkefni sem stendur til að bjóða út og verða vonandi boðin út á árinu þó að það seinki eitthvað á útboðinu. Það er auðvitað það sem við þurfum að gera í samfélagi þar sem er þensla að þá þurfum við að draga aðeins úr væntingunum og það á ekki endilega að koma niður á framkvæmdahraðanum þ.e.a.s. hvenær framkvæmdin er búin,” segir Sigurður Ingi og bætir við:
„En það þarf hins vegar að fara vel yfir það hvernig við getum haldið áfram fjárfestingu í landinu – þessari mikilvægu fjárfestingu – ekki síst í samgöngumálum í svona aðþrengdu efnahagsástandi.”