Einn greindist með hermannaveiki

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er til húsa í Borgartúni 12-14.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er til húsa í Borgartúni 12-14. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ein manneskja í Vatnsholti greindist með hermannaveiki en bakterían sem veldur veikinni fannst nýverið í húsi í Holtunum í Reykjavík.

Heimildin greinir frá.

Fram kemur í svari Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að embætti landlæknis hafi óskað eftir því að eftirlitið tæki vatnssýni á Vatnsholti og að þar hafi greinst baktería í einu húsi.

Búið að ráðast í hreinsun

„Hreinsun var gerð sem felst í því að dæla 70 gráðu heitu vatni um kerfið,“ segir í svari Heilbrigðiseftirlitsins við fyrirspurn Heimildarinnar.

Þá bætir Heilbrigðiseftirlitið því við í svari sínu að aftur hafi verið tekin sýni og að niðurstaða berist eftir 10 daga. Þó ætti allt að vera orðið hreint aftur.

„Aðeins einn veiktist en fullfrískir veikjast yfirleitt ekki,“ segir í svari Heilbrigðiseftirlitsins.

Heimkynni bakteríunnar í vatni

Á Vísindavefnum segir að fullfrískir einstaklingar geti fengið bakteríuna í öndunarveg án þess að veikjast. Alvarleg veikindi verði yfirleitt aðeins hjá einstaklingum með undirliggjandi áhættuþætti.

„Náttúruleg heimkynni bakteríunnar eru í vatni, hún þolir hitastig frá 0–63°C en kjörhitastig hennar er um það bil 30–40°C. Legíónella-bakterían getur lifað árum saman í vatnstönkum við 2–8°C og sest oft að í lokuðum endum pípulagna stórra bygginga þar sem vatnið stendur kyrrt og hitastig er ekki hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert