Ekki kærður þrátt fyrir ámælisverða háttsemi

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, og Hjálmar Jónsson á samsettri …
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, og Hjálmar Jónsson á samsettri mynd. Samsett mynd

Stjórn Blaðamannafélags Íslands ætlar ekki að leggja fram kæru til lögreglu á hendur Hjálmari Jónssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins.

Í tilkynningu segir að þrátt fyrir niðurstöðu lögfræðiálits LOGOS um að háttsemi hans hafi verið verulega ámælisverð og jafnvel refsiverð telji stjórn BÍ hagsmunum félagsins betur borgið með því að ljúka málinu í stað þess að halda því áfram um ótilgreindan tíma með ófyrirséðum afleiðingum og kostnaði.

Að öllum líkindum refsiverð háttsemi

Fram kemur í tilkynningunni að eftir niðurstöður úttektar KPMG á tilteknum færslum í bókhaldi BÍ hafi stjórn félagsins óskað eftir lögfræðiáliti frá LOGOS lögfræðiþjónustu um mögulega refsiábyrgð Hjálmars vegna háttsemi hans í starfi.

Lögmaður LOGOS byggði minnisblað sitt á úttekt KPMG og þeim ábendingum sem þar komu fram við skoðun á gögnum félagsins.

Niðurstaðan hafi verið sú að Hjálmar gerðist að öllum líkindum sekur um refsiverða háttsemi í starfi sínu fyrir félagið.

Meint brot hafi falist í lánveitingum sem hann veitti sjálfum sér af fjármunum félagsins án samþykkis stjórnar, greiðslu ökutækjastyrks og dagpeninga umfram heimildir og mögulega með kaupum á lausafé umfram ástæður og til persónulegra nota.

Millifærði á sig tæpar 9,2 milljónir

Í tilkynningunni segir að minnisblaðið sé afdráttarlaust og fari yfir hvernig fyrrverandi framkvæmdastjóri hafi misnotaði aðstöðuna sem hann fékk í krafti umboðs til ráðstöfunar á fjármunum félagsins, sérstaklega í sambandi við lánveitingar hans til sjálfs sín.

„Ljóst er að fyrrum framkvæmdastjóri millifærði á sjálfan sig tæpar 9,2 m.kr. og lét færa í bókhaldi sem fyrirframgreidd laun. Var það án heimildar og án vitneskju stjórnar félagsins. Greiðslurnar komu ekki fram á launaseðlum hjá fyrrum framkvæmdastjóra og því ekki hægt að rekja í bókhaldi að greiðslurnar tengist fyrirfram greiddum launum. Framangreind háttsemi fyrrum framkvæmdastjóra með lánveitingum til sjálfs síns án samþykkis stjórnar, greiðslur ökutækjastyrks og dagpeninga umfram heimildir og mögulega með kaupum á lausafé verulega umfram ástæður og til persónulegra nota fellur að öllum líkindum undir fjárdrátt samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940,“ segir í minnisblaðinu.

Þar er jafnframt sagt að brotið teljist að fullu framið þó svo að Hjálmar hafi greitt til baka það sem hann fékk að láni.

„Það sem einkennir fjárdrátt er að gerandi hafi fjárverðmæti þriðja aðila, eigandans, í vörslum sínum þegar tileinkun á sér stað. Þá ráðstafar gerandinn þeim í eigin þágu sem er eigandanum óviðkomandi og er án hans samþykkis,“ segir í minnisblaðinu.

Skýringar Hjálmars breyttu ekki niðurstöðu

Fram kemur í tilkynningunni að stjórn BÍ hafi að ráði lögmannsins óskað eftir skýringum frá framkvæmdastjóranum fyrrverandi í sambandi við ákveðin atriði sem komu fram í úttekt KPMG. Sendi hann stjórninni skýringar sínar í bréfi 6. júní síðastliðinn.

„Stjórn fól lögmanni LOGOS að meta skýringarnar og var það niðurstaða hans að þær breyttu ekki niðurstöðu minnisblaðsins; þ.e. að háttsemi framkvæmdastjórans fyrrverandi hafi verið verulega ámælisverð og jafnvel refsiverð,“ segir í tilkynningunni.

Þrátt fyrir niðurstöðuna hafi stjórn BÍ ákveðið á stjórnarfundi 21. júní að ljúka málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert