Eldgos í sumar sennilega það síðasta

Þessi mynd var tekin í lok maí af síðasta eldgosi …
Þessi mynd var tekin í lok maí af síðasta eldgosi í Sundhnúkagígum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn er möguleiki á einu eldgosi til viðbótar í Sundhnúkagígaröðinni í sumar. Sennilegt er að það yrðu endalokin á virkninni á svæðinu í bili. Þetta segir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur.

Í mars síðastliðnum spáðu hann og Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur goslokum í Sundhnúkagígaröðinni á seinni hluta sumarsins.

Í maí kom síðan fram í bloggfærslu Haraldar að kólnun og storknun kviku á jörðum kvikugangsins væri stöðugt að þrengja aðfærsluæðina og myndi að lokum stöðva virknina undir Sundhnúkagígaröðinni.

„Út frá slíkum gögnum höfum við Grímur Björnsson því spáð goslokum í byrjun júlí í ár.“

Spurður út í goslokaspána segir Haraldur:

„Ef þú dregur línuna við núllpunktinn myndi það vera í júlí en það er mikil skekkja í báðar áttir á svona línu. En það hefur verið sláandi hvað það hefur dregið kerfisbundið úr kvikurennsli frá upphafi. Það setti okkur af stað með þessa spá.“

Kröflueldar enduðu í landrisi

Hann segir jafnframt að þrátt fyrir að landris sé í gangi við Svartsengi sé ekki þar með sagt að eldgos verði að veruleika. Sem dæmi hafi Kröflueldar, sem stóðu yfir frá 1975 til 1984, endað í landrisi. Í bloggi frá því 4. maí sagði Haraldur einmitt:

„Það er tiltækast að bera þessa virkni saman við Kröfluelda, sem er svipað sprungugos og virkni þess mjög vel skráð. Eitt athyglisvert varðandi Kröflu er að þegar hún hætti að gjósa var staða landriss há og hélt áfram að rísa um tíma. Það er því ekki ólíklegt að Sundhnúkagígaröðin hagi sér eins.“

Órói á öllu Reykjanesi 

Haraldur nefnir að kvikustreymið undir Svartsengi sé afleiðing af flekahreyfingum. Norður-Ameríkuflekinn sé að mjakast mjög hægt til vesturs.

„Svo rykkist hann til öðru hvoru. Það er það sem gerðist 10. nóvember og opnaði kerfið.“ Þar á Haraldur við jarðhræringarnar sem urðu þann dag og urðu til þess að Grindavíkurbær var rýmdur.

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við eldgosið í Holuhrauni árið 2014.
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við eldgosið í Holuhrauni árið 2014. mbl.is/RAX

„Það er kvika fyrir hendi og verður alltaf eitthvað. Það er bara hvar hún kemst upp en það er ekki mikill þrýstingur á bak við. Þetta eru smá skot öðru hvoru og þá er bara spursmál hvar opnast rás, hvort það þarf aðra flekahreyfingu til að koma af stað ...en það getur líka verið að það sé nóg þarna fyrir hendi til að koma af stað öðru gosi í sumar, það er alls ekkert útilokað,“ greinir hann frá og á þar við Sundhnúkagígaröðina.

„En við vitum að allt Reykjanesið er í einhverjum óróa og það er sennilega vegna stórra flekahreyfinga.“

Hann segir að svæði á borð við Krýsuvík og Eldvörp, sem hafa sýnt jarðskjálftavirkni, gætu í framtíðinni farið í gang. Ekkert bendi þó til yfirvofandi virkni þar eins og staðan er núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert