Fluttu inn kókaín í tölvukassa

Samtals lagði lögreglan hald á um 2,5 kg af kókaíni …
Samtals lagði lögreglan hald á um 2,5 kg af kókaíni og önnur fíkniefni í málinu. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórir hafa verið ákærðir í tengslum við innflutning á tæplega tveimur kílóum af kókaíni til landsins í júlí í fyrra. Voru efnin flutt í hraðsendingu frá Bandaríkjunum og falin í tveimur pakkningum inni í tölvuturni sem pakkað var með tölvuskjá í sendingunni. Talsvert af fíkniefnum fannst einnig í fórum höfuðpaurs málsins og fimmta manns.

Í ákæru embættis héraðssaksóknara er rakið hvernig tollverðir hafi fundið efnin við tollskoðun. Var um að ræða rétt tæplega tvö kíló af kókaíni með 87% styrkleika. Var ákveðið að skipta kókaíninu út fyrir gerviefni og hlustunarbúnað og var pakkinn svo sendur áfram.

Höfuðpaur málsins, sem er tæplega þrítugur, er ákærður fyrir að skipuleggja innflutninginn með því að hafa verið í sambandi við óþekktan mann í gegnum samskiptaforritið Telegram dagana og vikurnar áður en pakkinn var sendur.

Hann bað einnig konu sem ákærð er í málinu um að finna menn til að sækja pakkann í afgreiðslu Fedex hraðsendingafyrirtækisins sem og hún gerði. Afhentu konan og höfuðpaurinn tveimur mönnum pening til að greiða fyrir sendinguna og fóru þeir og sóttu pakkann.

Því næst héldu þeir niður í Mjódd, en fyrir utan Breiðholtskirkju var pakkinn opnaður og fóru þeir því næst að bifreið þar sem konan og höfuðpaurinn voru. Í kjölfarið handtók lögreglan þau öll fjögur.

Farið var í húsleit á heimili höfuðpaursins og fundust þar 450 gr af kókaíni, tæplega hálft kíló af hassi og minna magn af öðru fíkniefnum. Nokkrum dögum síðar var svo fimmti maðurinn handtekinn eftir að um 227 gr af kókaíni fannst í bifreið hans, en í ákæru kemur fram að hann hafi haft efnin í sínum vörslum að beiðni höfuðpaursins. Voru efnin meðal annars í peningaskáp sem var í bifreiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert