Fylgi Miðflokksins komi frá Sjálfstæðisflokknum

Miðflokkurinn mælist með sitt mesta fylgi frá stofnun flokksins. Framsókn …
Miðflokkurinn mælist með sitt mesta fylgi frá stofnun flokksins. Framsókn mælist með 6,6% og Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 18,5%. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Kristinn

Miðflokkurinn hefur aldrei í sögu flokksins mælst með meira fylgi í Þjóðarpúlsi Gallup en nú og líkur er á að fylgi þeirra komi fyrst og fremst frá Sjálfstæðisflokknum.

Þetta segir stjórnmálafræðingurinn Eva Heiða Önnudóttir í samtali við mbl.is.

„Það hefur alltaf verið töluverð færsla á fylgi á milli Sjálfstæðisflokks og Miðflokks og Sjálfstæðisflokkurinn hefur náttúrulega verið að fá lægra í könnunum núna en hann fékk í kosningunum. Það er ekkert ólíklegt að töluvert af því fylgi sé að fara á Miðflokkinn,“ segir hún aðspurð um fylgi Miðflokksins.

Mögulega óánægjufylgi

Hún segir að möguleg útskýring á fylgisaukningu flokksins sé að kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks, sem eru óánægðir með ríkisstjórnarsamstarfið, hafi yfirgefið flokkanna og svari í könnunum að þeir hyggist kjósa Miðflokkinn.

Viðreisn gæti reyndar líka grætt á þeim kjósendum, segir hún.

Miðflokk­ur­inn mæl­ist með 14,5% fylgi í könn­un Gallup í gærkvöldi. Flokk­ur­inn náði síðast hápunkti þann 29. fe­brú­ar árið 2020 þegar hann mæld­ist með 14,2% fylgi.

Tekur miklu meira frá Sjálfstæðisflokknum

Miðflokk­ur­inn var upp­haf­lega klofn­ings­fram­boð Fram­sókn­ar og mælist nú með rúmlega tvöfalt meira fylgi en Framsókn, sem mælist með 6,6% fylgi.

Er það óvenjulegt?

„Nei, ég myndi ekki segja það. Meðal annars vegna þess að allar kannanir sem hafa verið gerðar, þar sem er spurt hvaða flokk fólk kaus síðast, þá sjáum við að Miðflokkurinn er í raun að taka miklu meira frá Sjálfstæðisflokknum en Framsóknarflokknum,“ segir hún.

Eva bendir á að þannig hafi það verið allt frá stofnun Miðflokksins.

„Sem var kannski ekki það sem fólk bjóst við þar sem hann klífur sig frá Framsóknarflokknum.“

Eva Heiða Önnudóttir, doktor í stjórnmálafræði.
Eva Heiða Önnudóttir, doktor í stjórnmálafræði. Ljósmynd/Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Óljóst hvert fylgi Framsóknar er að fara

Erfitt er að segja nákvæmlega um hvert fylgi Framsóknar er að fara, að sögn Evu. Hún bendir á að Framsóknarflokkurinn sé miðjuflokkur og því gæti fylgistapið verið að dreifast í allar áttir.

Nefnir hún sem dæmi að fylgið gæti verið að fara yfir til Miðflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins.

Lítið forspárgildi um úrslit kosninga

Vinstri græn mælast annan mánuðinn í röð hjá Gallup með undir 5% fylgi og næðu því ekki manni á þing.

„Ég held að það hafi ekki gerst í könnunum frá því hann var stofnaður sem VG, að hann hafi farið undir þennan 5% þröskuld í skoðanakönnunum,“ segir Eva en bætir við:

„En skoðanakannanir sem eru gerðar á miðju kjörtímabili gefa lítið forspárgildi um úrslit kosninganna. Um leið og kosningabaráttan fer að byrja fer maður að sjá kannanir sem gefa kannski einhverja forspá um hver geta verið úrslit kosninganna.“

Fylgi Pírata stendur í stað

Píratar mælast með 8,8% fylgi og standa nokkurn veginn í stað. Evu þótti þetta áhugavert í ljósi þess að fylgi annarra flokka er á meiri hreyfingu.

„Kannski er þetta endurspeglun á það að Píratar hafa ekki verið að standa í mjög umdeildum málum undanfarið, eins og til dæmis Samfylkingin. Það var töluverð óánægja með að þau mótmæltu ekki útlendingafrumvarpinu kröftulega,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert