Kalla eftir afstöðu Íslands gegn námuvinnslu á hafsbotni

Fjölmörg ríki hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um tímabundið bann við …
Fjölmörg ríki hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um tímabundið bann við námuvinnslu á hafsbotni vegna áhyggja um áhrif á lífríki sjávar. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun

Ungir umhverfisverndunarsinnar á Íslandi og í Noregi fordæma ákvörðun norskra stjórnvalda um að leyfa námuvinnslu á hafsbotni og kalla eftir að því að Ísland taki afstöðu gegn ákvörðuninni. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Natur og Ungdom í Noregi, SOA og Ungir umhverfisverndunarsinnar á Íslandi sendu frá sér. 

Þann 26. júní 2024 opnaði ríkisstjórn Noregs fyrir umsóknir fyrirtækja til að leita að málmum á hafsbotni innan norskrar lögsögu. Svæðið sem um ræðir er um 280 þúsund ferkílómetrar. 

Samtökin þrjú segja að ákvörðunin sé tekin þrátt fyrir viðvaranir vísindamanna sem telja að þekking á áhrifum námuvinnslu á hafsbotni á vistkerfi sé ekki nægileg til að réttlæta slíkan iðnað.

Rannsóknir benda til að námuvinnsla á hafsbotni hafi mjög neikvæð …
Rannsóknir benda til að námuvinnsla á hafsbotni hafi mjög neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni og að mestu óafturkræf áhrif. Námuvinnsla gæti haft mikil áhrif á norsk-íslenska vorgotssíldina, sem er mikilvæg fyrir íslenskan, færeyskan og norskan sjávarútveg. Kort/Ungir umhverfisverndunarsinnar

Málmarnir taldir óþarfir

Fjölmörg ríki, þar á meðal Svíþjóð, Danmörk, Finnland, Kanada og Bretland, hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um tímabundið bann við námuvinnslu á hafsbotni vegna áhyggja um áhrif á lífríki sjávar.

Frakkland hefur bannað námuvinnslu á hafsbotni, en Ísland hefur enn ekki tekið afstöðu í þessum málum.

Norska ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að setja örlög hafsbotnsins í hendur fyrirtækja með litla vitneskju um afleiðingar þessa iðnaðar.

Rökstuðningurinn fyrir námuvinnslunni er að afla málma sem eru nauðsynlegir fyrir græn orkuskipti, en margir telja þessa málma vera óþarfa og að nýjar gerðir rafhlaðna sem ekki nýta þessa málma séu nú þegar til staðar.

Fréttatilkynningin í heild:

Óafturkræfur skaði á vistkerfum sjávar í nafni grænna orkuskipta

Þann 26. júní 2024 opnaði ríkisstjórn Noregs fyrir umsóknir fyrirtækja til leitar að málmum á hafsbotni innan norskrar lögsögu. Svæðið sem um ræðir er um 280 þúsund ferkílómetrar eða á stærð við Ítalíu (sjá mynd að neðan). Þetta skref var tekið þrátt fyrir fjölda viðvarana frá vísindafólki frá Noregi og utan úr heimi sem telja næga þekkingu ekki vera til staðar til þess að hægt sé að skera úr um að áhrif námuvinnslu á hafsbotni á vistkerfi séu óveruleg. Fjölmörg ríki hafa skrifað undir viljayfirlýsingu vegna tímabundins banns við námuvinnslu á hafsbotni vegna mögulegra áhrifa á lífríki sjávar. Meðal ríkja eru Svíþjóð, Danmörk (ásamt Færeyjum og Grænlandi), Finnland, Kanada og Bretland. Frakkland hefur tekið skrefið enn lengra til að standa vörð um lífríki sjávar og bannað námuvinnslu á hafsbotni. Ísland hefur enn ekki tekið afstöðu í þessum málum. 

Með því að opna fyrir leyfi til námuvinnslu sýnir ríkisstjórn Noregs ítrekað áhugaleysi fyrir hagsmunum almennings í Noregi og um heim allan. Ríkisstjórnin setur örlög hafsbotnsins í hendur örfárra fyrirtækja með litla vitneskju um afleiðingar þessa iðnaðar. Hvatinn fyrir þessum iðnaði eru græn orkuskipti en málmar eins og kóbalt eru mikilvægir í sumar gerðir rafhlaðna. Allt bendir þó til að þessir málmar séu óþarfir og komi of seint til að stuðla að orkuskiptum, nýjar gerðir rafhlaðna sem ekki nýta þessa málma hafa litið dagsins ljós og fjölmörg fyrirtæki hafa lýst því yfir að málmar af hafsbotni verði ekki notaðir í þeirra framleiðslu.

Þekking á áhrifum þessa nýja iðnaðar á lífríki er takmörkuð en þær fáu rannsóknir sem hafa verið gerðar benda flestar til þess að áhrif af námuvinnslu á hafsbotni verða mjög neikvæð á líffræðilega fjölbreytni og að mestu óafturkræf.

Við þennan iðnað þyrlast botnset upp og getur haft áhrif á öll lög sjávar, frá botnsætum lífverum allt til svifþörunga í efri lögum sjávar. Svæðið sem ætlunin er að grafa eftir málmum á er mikilvægt norsk-íslensku vorgotssíldinni. Síldin ferðast frá ströndum Noregs til Jan Mayen og að austurströnd Íslands í fæðuleit, en hún étur svifþörunga. Síldin er mikilvægur uppsjávarfiskur fyrir Ísland, Færeyjar og Noreg en áhrifin af námuvinnslunni á þennan fisk hafa ekki verið rannsökuð. Ljóst er að ef allt fer á versta veg verða áhrif á íslenskan sjávarútveg mikil. Áhrifin af námuvinnslunni eru því ekki staðbundin.

Náttúruverndarsamtök á Íslandi og í Noregi fordæma þessa ákvörðun norskra stjórnvalda. Tími er kominn til að Ísland taki afstöðu gegn þessum skaðlega iðnaði og beiti norsk stjórnvöld þrýstingi til að koma í veg fyrir að óafturkræf áhrif á lífríki og íslenskan sjávarútveg.

Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir, formaður SOA Iceland

Gytis Blazevicius, formaður Natur og Ungdom í Noregi

Sigrún Perla Gísladóttir, Ungir umhverfissinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert