Ljóst að spýta þurfi í lófana

Sigurður Ingi, Ásmundur Einar og Willum Þór tjáðu sig allir …
Sigurður Ingi, Ásmundur Einar og Willum Þór tjáðu sig allir um fylgi Framsóknarflokksins eftir ríkisstjórnarfund í dag. Samsett mynd

„Það er aldrei gaman að mælast með sífellt minna fylgi en eins og ég hef bent á þá er þetta núverandi efnahagsástand, með svona háum vöxtum svona lengi, auðvitað farið að bíta í allt og alla og stjórnvöld á hverjum tíma líða auðvitað fyrir það.”

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um lítið fylgi Framsóknarflokksins.

Samkvæmt nýjustu mælingum þjóðarpúls Gallup mælist Framsóknarflokkurinn aðeins með 6,6% fylgi en mældist flokkurinn með um 9% fylgi fyrir mánuði síðan.  

Blaðamaður mbl.is náði tali af Sigurði Inga, formanni flokksins, ásamt flokksbræðrum hans Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra og Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra, eftir ríkisstjórnarfund í morgun.  

„Það er langt til kosninga” 

Ásmundur Einar segir það alveg ljóst að flokkurinn þurfi að spýta í lófana. Nefnir hann að verið sé að gera marga góða hluti en tekur þó í sama streng og Sigurður Ingi og nefnir að vaxtaumhverfi landsins hafi áhrif.  

„Það er líka alveg ljóst að í vaxtaumhverfi eins og við erum í – með háum stýrivöxtum sem eru sannarlega farnir að bíta – þá er það að byrja að hafa áhrif þannig ég von á því líka að þegar við förum að sjá rætast aðeins úr því að þá komi þetta,” segir Ásmundur og bætir við: 

„Það er langt til kosninga.” 

Willum Þór Þórsson segist ekki hafa velt mælingunum mikið fyrir sér en segir þó að auðvitað vilji menn frekar sjá mælingar fara upp frekar en niður. 

„Ég held að það sé alltaf mjög hollt að halda sig við að vinna vinnuna sína og klára síðan þau mál sem maður er að vinna hverju sinni,” svarar Willum er hann er spurður um næstu skref.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert