Haraldur Örn Ólafsson er eini Íslendingurinn sem hefur gengið á norðurpólinn frá föstu landi. Hann lagði upp í þennan krefjandi leiðangur í mars árið 2000, ásamt Ingþóri Bjarnasyni félaga sínum. Ingþór varð frá að hverfa eftir að hann kól á fingrum.
Síðasti spölurinn sem Haraldur Örn gekk til að ná pólnum og þar með nítugustu gráðu var mikið átak. Hafísinn var byrjaður að brotna upp enda farið að vora jafnvel á nyrsta hluta jarðkringlunnar.
Af þessu leiddi að ísinn rak sem nam kílómetra á klukkustund gegn göngustefnu Haraldar. Hann þurfti því að setja undir sig hausinn og með maraþonátaki tókst honum að ná pólnum með sleitulausri göngu í einn og hálfan sólarhring.
Þegar GPS-mælirinn sýndi 89 gráður, 59 mínútur og aukastafi var hann á pólnum. Þá var hringt í þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson sem í beinni sjónvarpsútsendingu tók við símtalinu og óskaði pólfaranum til hamingju.
Haraldur Örn er gestur Dagmála í dag og ræðir þar þá einstæðu leiðangra sem hann hefur lagt upp í og klárað. Báðir pólarnir og hæstu tindar allra heimsálfa á einu ári.
Í viðtalsbrotinu hér að ofan lýsir Haraldur Örn síðasta leggnum og átakinu við að ná pólnum við þessar erfiðu aðstæður þar sem lífshætta leyndist við hvert fótmál.
Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.