Nemendum í framhaldsskólum fækkaði um 618 í fyrra

Færri nemendur sóttu framhaldsskóla og háskóla haustið 2023.
Færri nemendur sóttu framhaldsskóla og háskóla haustið 2023. mbl.is/Sigurður Bogi

Nemendur á skólastigum fyrir ofan grunnskóla á Íslandi voru 43.446 haustið 2023 og hafði fækkað um 618 frá fyrra ári, eða um 1,4%. Nemendum á framhalds- og háskólastigi hefur fækkað á hverju ári frá árinu 2020, þegar rúmlega 46.300 nemendur stunduðu nám.

Nemendum fækkaði um 71 á framhaldsskólastigi og um 601 á háskóla- og doktorsstigi. Á sama tíma fjölgaði um 54 á viðbótarstigi þar sem er nám sem bætist ofan á nám á framhaldsskólastigi en er ekki á háskólastigi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands

Körlum við nám fjölgaði frá fyrra ári

Alls voru 94,8% 16 ára nemenda skráðir í nám á framhaldsskólastigi haustið 2023 en hlutfallið var 95,4% haustið 2022. Skólasóknarhlutfall 16 ára fór síðast undir 95% haustið 2018. Lítið eitt fleiri 17 og 18 ára nemendur stunduðu nám haustið 2023 en haustið 2022.

Alls sóttu tæplega 19.900 karlar nám og tæplega 23.600 konur. Körlum við nám fjölgaði um 36 frá fyrra ári (0,2%) en konum fækkaði um 654 (-2,7%). Karlar voru 54% nemenda á framhaldsskólastigi, 74% á viðbótarstigi og 35% nemenda á háskóla- og doktorsstigi.

Íslenskir ríkisborgarar voru 91,8% nemenda á framhalds- og háskólastigi og erlendir ríkisborgarar 8,2%. Þetta er hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara í námi ofan grunnskóla á Íslandi sem sést hefur í tölum Hagstofunnar en hlutfallið var 7,4% haustið 2022. Pólverjar eru fjölmennastir í hópi nemenda með erlent ríkisfang, rúmlega 600 talsins, en á þriðja hundrað nemenda eru frá Bandaríkjunum og lítið eitt færri frá Þýskalandi.

Nemendur í framhalds- og háskólum 1997-2023.
Nemendur í framhalds- og háskólum 1997-2023. Kort/Hagstofa Íslands

Flestir í félagsvísindum

Flestir háskólanemendur stunda nám í félagsvísindum, viðskiptum og lögfræði
Langflestir háskóla- og doktorsnemar sóttu nám á sviði félagsvísinda, viðskipta og lögfræði haustið 2023, eða rúmlega 6.200 nemendur. Næstflestir nemendur voru á sviði heilbrigðis og velferðar, rúmlega 3.500 nemendur.

Tæplega 2.900 stunduðu nám á sviði menntavísinda og rúmlega 2.300 lærðu hugvísindi og listir. Þá lögðu rúmlega 2.100 nemendur stund á raunvísindi, stærðfræði eða tölvunarfræði og tæplega 1.900 nemendur námu verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerð.

Tveir síðastnefndu flokkar náms eru oft kallaðir STEM og er í mörgum löndum lögð áhersla á að fjölga nemendum í þessum greinum. Nemendur í STEM greinum hafa verið 19-21% háskólanemenda undanfarinn áratug á Íslandi, og voru 20,2% háskólanema haustið 2023.

Nemendur á háskólastigi eftir námssviðum árið 2023.
Nemendur á háskólastigi eftir námssviðum árið 2023. Kort/Hagstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert