Ók á 157 kílómetra hraða

Verkefni lögreglunnar eru ýmis.
Verkefni lögreglunnar eru ýmis. mbl.is/Ari

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af ökumanni sem ók á 157 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Það var lögreglustöð tvö sem hafði afskipti af manninum en hún sinnir verkefnum í Hafnarfirði og Garðabæ.

Í umdæmi lögreglustöðvar eitt, sem sinnir verkefnum í stórum hluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi, voru tveir handteknir, þeir eru grunaðir um sölu og dreifingu fíkniefna. Meint fíkniefni voru haldlögð og skýrsla rituð um málið.

Fimm grímuklæddir menn

Í umdæmi lögreglustöðvar fjögur, sem sinnir verkefnum í Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ, var tilkynnt um fimm grímuklædda einstaklinga að brjóta útidyrahurð að heimili tilkynnanda rétt eftir miðnætti. Í dagbók lögreglu segir að þeir hafi yfirgefið vettvang á bifreið sem lögregla stöðvaði stuttu seinna. Allir farþegar í bifreiðinni voru handteknir og vistaðir í fangaklefa vegna gruns um þjófnað og húsbrot. Málið er í rannsókn.

Þá var einstaklingur handtekinn í umdæmi lögreglustöðvar eitt þar sem hann sýndi af sér ógnandi hegðun. Fram kemur að hann eigi sögu um vopnaburð og ofbeldi og því hafi hann verið tryggður af lögreglu og færður í handjárn. Þá kemur fram að hann hafi sýnt mikla mótspyrnu og ekki farið eftir fyrirmælum. Hann sofi nú í fangaklefa þar til hann verði yfirheyrður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert