Rannsókn á kynferðisbroti, sem laut meðal annars að skipverjum grænlenska togarans Polar Nanoq, er nú lokið.
Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að Polar Nanoq og skipverjar þess hafi tengst rannsókn málsins í samtali við mbl.is í dag.
Lögreglan hóf rannsókn máls vegna gruns um kynferðisbrot í Hafnarfirði í júní en ekki var þá staðfest hvort rannsóknin beindist að skipverja um borð í togaranum.
Útgerðarstjóri Sigguk A/S, sem er undir hatti Polar Seafood, hélt því þá fram að fregnir af meintu kynferðisbroti skipverja Polar Nanoq væru rangar. Sagði hann engan skipverja togarans liggja undir grun um kynferðisbrot.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn neitaði svo að útiloka að rannsóknin beindist að skipinu, í samtali við mbl.is 11. júní.
Að sögn Ævars er rannsókn málsins lokið og málið komið til afgreiðslu ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem taka muni ákvörðun um framhald þess.
Polar Nanoq rataði einnig í fréttir árið 2017 eftir að skipverjinn Thomas Møller Olsen myrti Birnu Brjánsdóttur.