„Við getum þá bara tekið einfaldlega þróun á Norðurlöndum þar sem eru einokunarverslun, og í nokkrum fylkjum Í Kanada líka. Nú áfengisneysla á Norðurlöndum hefur annað hvort staðið í stað eða aukist. Áfengisneysla í suðurhluta Evrópu þar sem er viðskiptafrelsi alstaðar er að minnka og það stórlega.“
Þetta segir Arnar Sigurðsson vínkaupmaður hjá Santé í harkalegri rökræðu við Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins. Hann segir ekkert að marka röksemdir Framsóknarflokksins fyrir ríkiseinokun þar sem lýðheilsusjónarmið vega þungt.
Og hann heldur áfram:
„Bíddu, hvað sannar það, áfengisneysla upp þar sem eru einokunarverslanir, niður þar sem er viðskiptafrelsi. Hvað sannar það? Sannar það að einokunarverslanir auki söluna, nei, við vitum alveg hvað þið mynduð segja ef þetta væri í hina áttina sko. Þá mynduð þið kenna viðskiptafrelsinu um. En hvað ætlið þið að segja yfir þessari þróun sem er núna? Nei, það stenst ekki neitt af því sem þið eruð að segja.“
Í viðtalinu segist Hafdís Hrönn vilja vernda einokunarstöðu ÁTVR. Þá séu áhöld um það hvort áfengissalan hér á landi í gegnum netið sé í raun lögleg þar sem hin erlendu fyrirtæki sem hana stundi geri það í gegnum lager hér á landi. Hún hefur þó velt upp þeim möguleika að verslunum yrði heimilað að selja bjór á ákveðnum tímum sólarhringsins undir tiltekinni áfengisprósentu. Arnar gefur lítið fyrir slíkar hugmyndir.
„Og ég veit ekki hvað kemur fólki eins og Framsóknarflokknum til að halda það að þið séuð þess umkomin að stýra því klukkan einhver kaupir bjór sem er 4,5% en ekki 5% eða öfugt. Hvað fær ykkur til að halda að þið séuð yfir aðra hafin? Við viljum ekki að unglingar geti keypt áfengi. Þið eruð að selja unglingum áfengi. Af hverju lokið þið því ekki? Það er ekkert að marka það sem þið segið. Þið hafið aldrei lyft litla fingri yfir óheftri markaðssetningu. Markaðskostnaður ÁTVR er nánast, ég myndi segja örugglega hærri en rekstrarkostnaður allra samkeppnisaðilanna. Bara markaðskostnaðurinn. Og þarna eru hundruðir milljóna í auglýsingar. Hvað er það?“
Viðtalið við Arnar og Hafdísi má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan: